8.12.2017 10:26

Styrkur til að minnast fullveldisins

Ég sendi inn umsókn í samvinnu við Lárus Ágúst Bragason, framhaldsskólakennara í Miðhúsum í Rangárþingi eystra, vegna verkefnisins Fullveldið og hlíðin fríða.

Í gær (7. desember) kom fjöldi manns saman í gamla lestrarsalnum í Safnahúsinu við Hverfisgötu þar sem kynnt var úthlutun á styrkjum til að minnast 100 ára afmælis fullveldis Íslands á næsta ári.

Fyrir ári skipaði alþingi nefnd til að undirbúa hátíðahöld í tilefni hundrað ára afmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands árið 2018. Afmælisnefndin undir formennsku Einars K. Guðfinnssonar leitaði til landsmanna eftir tillögum að verkefnum á dagskrá afmælisársins. Hundrað verkefni voru valin úr 169 innsendum tillögum. Einar K. og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, framkvæmdastjóri afmælisnefndarinnar, afhentu styrkina. Lista yfir þá má sjá hér.

Ég sendi inn umsókn í samvinnu við Lárus Ágúst Bragason, framhaldsskólakennara í Miðhúsum í Rangárþingi eystra, vegna verkefnisins Fullveldið og hlíðin fríða.

Verkefnið fékk 300.000 kr. styrk og er því lýst á þennan veg í greinargerð nefndarinnar:

„Heiti verkefnisins vísar til Fljótshlíðar, ættjarðarástarinnar og Gunnars á Hlíðarenda. Það snýst um að lýsa tengslum rómantíkur og raunsæis í sjálfstæðisbaráttunni sem leiddi til fullveldis. Bjarni Thorarensen amtmaður fæddist á Hlíðarenda í Fljótshlíð, áhrif hans á Jónas Hallgrímsson skáld og aðra Fjölnismenn eru ótvíræð. Jónas heimsótti vin sinn sr. Tómas Sæmundsson, prófast á Breiðabólstað í Fljótshlíð, og orti síðan Gunnarshólma. Í Jónasi og sr. Tómasi mætast rómantík og raunsæi. Hver voru áhrifin á sjálfstæðisbaráttuna? Haldnir verða fjórir fyrirlestrar að Kvoslæk í Fljótshlíð sem fjalla um viðfangsefni verkefnisins.“

Við höfum nú þegar tryggt að góðir fyrirlesarar verða hjá okkur að Kvoslæk, fyrst í maí og júní og síðan í ágúst og september. Þeir eru Sveinbjörn Rafnsson, prófessor emeritus, Sveinn Yngvi Egilsson prófessor, Marion Lerner dósent og Gunnar Þór Bjarnason sagnafræðingur.

Á fundinum í gær var brugðið upp korti af Íslandi til að sýna dreifingu styrkja um landið og má sjá þar að með styrknum til okkar er tryggt að Rangárþing kemst inn á kortið.