Styðjum forskot Úkraínu!
Hann segir að stríðsgæfan sé að snúast Úkraínumönnum í hag. Það sem nú gerist í Kúrsk staðfesti aðeins þróun sem hafi skýrst jafnt og þétt í huga þeirra sem fylgist náið með gangi stríðsins.
Menningar- og upplýsingaráðuneyti Úkraínu sendi frá sér tilkynningu eftir að stytta af Lenín hafði horfið af torginu í Sudsja í rússneska Kúrsk-héraðinu og sagði markvisst unnið að því að fjarlægja minjar frá stjórnartíð kommúnista.
Úkraínumenn hafa reynslu af slíkri hreingerningu. Flest minnismerki um kommúnismann voru skipulega fjarlægð í landinu eftir Maiden-byltinguna þar 2013-2014. Einu stytturnar af Lenín í Úkraínu eru á hættusvæði umhverfis Tsjernobíl-kjarnorkuverið sem lýst var geislavirkt eftir eldsvoða í verinu.
Talið er að reistar hafi verið um 7.000 styttur af Lenín í Rússlandi á tíma stjórnar kommúnista í Sovétríkjunum og enn standi um 6.000 þeirra víðs vegar um landið.
Frá torginu í rússneska bænum Sudsja í Kúrsk-héraði. Hermenn Úkraínu hafa fjarlægt Lenín-styttuna.
Frá þessu var skýrt á bresku vefsíðunni The Telegraph. Þar birtist einnig grein 16. ágúst eftir Hans Petter Midttun, fyrrverandi varnarmálafulltrúa Norðmanna í Úkraínu, sem segir að stríðsgæfan sé að snúast Úkraínumönnum í hag. Það sem nú gerist í Kúrsk staðfesti aðeins þróun sem hafi skýrst jafnt og þétt í huga þeirra sem fylgist náið með gangi stríðsins.
Hann segir að á einni viku hafi Úkraínuher náð undir sig landsvæði í Kúrsk sem sé svipað að stærð og það sem rússneski herinn hefði lagt undir sig í austurhluta Úkraínu á sex mánuðum í upphafi árs 2024. Þarna sjáist munurinn á gæðum og magni, áhlaupið í Kúrsk breyti gangi stríðsins.
Midttun vitnar í rússneska seðlabankastjórann sem sagði að vinnuafl og framleiðslugeta Rússa væri nær því að þrotum komin og hagkerfið væri að „ofhitna“. Úkraínumenn standi mun betur að vígi efnahagslega með stuðningi 56 auðugustu lýðræðisríkja heims. Að stríðinu loknu verði Úkraína síðan aðili að ESB og NATO með stuðningi þaðan við endurreisn.
Rússar geti ekki aukið vopnasmíði sína umfram það sem nú er, þá vanti 4,8 milljón manns á vinnumarkaðinn. Unglingar, gamalmenni og jafnvel fangar séu kallaðir til bráðnauðsynlegra starfa.
Vegna viðskiptabanns geti Rússar ekki endurnýjað herafla sinna með hátækni. Í fyrra hafi Kremlverjar státað sig af því að senda 1.530 skriðdreka á vígvöllinn. Þess hafi hins vegar ekki verið getið að 85% voru frá sjötta áratugnum. Nú hafi þessi vopnabúr verið tæmd. Úkraínumenn búi ekki við neitt sem komi í veg fyrir að þeir nýti sér hátækni. Þeir geti ráðist á skotmörk sem eru 1.800 km innan rússnesku landamæranna.
Úkraínumenn stefni að því að framleiða þrjár milljónir dróna á ári og nýta gervigreind til fullnustu. Þeir sendi nú þegar tæki í stað manna til orrustu við hættulegustu aðstæður.
Hans Petter Midttun segir að skref fyrir skref séu Úkraínumenn að sigra Rússa með stuðningi Vesturlanda.
Hann lýkur grein sinni á þessum orðum:
„Forskot Úkraínu er einnig forskot Evrópu, lýðræðis og virðingar fyrir alþjóðalögum. Það er því tímabært að ýta undir þetta forskot til að binda enda á stríðið, þjáningarnar og eyðilegginguna. Það er tímabært að Pútin fái leið út úr ógöngunum: aðild Úkraínu að NATO eða íhlutun af hálfu NATO.“·