Stundin afvegaleiðir Jóhönnu og Loga
Hvert er hneykslið? Að þessi fyrirtæki urðu gjaldþrota og kröfuhafar töpuðu á þeim eins og eigendur þeirra? Vildi Jóhanna að fyrirtækjunum yrði gert kleift að lifa?
Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009. Hún og Steingrímur J. Sigfússon, þáv. fjármálaráðherra, gripu til aðgerða sem færðu kröfuhöfum meiri áhrif og völd en gert var ráð fyrir í neyðarlögunum frá því í október 2008. Þeir tóku ákvarðanir sem leiddu til gjaldþrota fyrirtækja og þar með afskrifta skulda, lánardrottnar réðu þar ferðinni. Ekki hefur allt verið upplýst um afskipti þeirra Jóhönnu og Steingríms J. af þeim málum öllum.
Í gær setti Jóhanna á FB-síðu sína:
„Það er með ólíkindum hvað fjölmiðlar hafa lítið fjallað um frétt Stundarinnar eftir að lögbanni var aflétt um fjármál og virkan þátt Bjarna Benediktssonar í að stýra eða koma að fjárfestingum fjölskyldu sinnar upp á 130 milljarða kr. Öll fyrirtækin eru gjaldþrota eða hafa verið yfirtekin af kröfuhöfum. Afskriftirnar eru í samræmi við það. Bjarni og hans fjölskylda hafði sem sagt allt sitt á þurru meðan almenningur tapaði fúlgum fjár í hruninu. Það sem undrun sætir er að þegar Logi Einarsson tók málið upp á Alþingi í dag kom Katrín Jakobsdóttir Bjarna í skjól og sá ekkert athugavert við að hann sæti í stóli fjármálaráðherra. Erlendis væri fjármálaráðherra með þessa fortíð löngu farinn frá og ítarleg rannsókn sett í gang. Ætlar stjórnarandstaðan að gera eitthvað í málinu, krefjast umræðu og rannsóknar á þessu, eða ætlar hún að þegja eins og flestir fjölmiðlar? Þetta mál er hneyksli og á ekki að líðast.“
Hvert er hneykslið? Að þessi fyrirtæki urðu gjaldþrota og kröfuhafar töpuðu á þeim eins og eigendur þeirra? Vildi Jóhanna að fyrirtækjunum yrði gert kleift að lifa? Áhöld eru um hvernig staðið var að því á þessum stjórnarárum hennar og Steingríms J. að ákveða hvaða fyrirtæki lifðu og hver yrðu gjaldþrota og hvort ráðherrar eða útsendarar þeirra höfðu þar hönd í bagga.
Það er rangt hjá Jóhönnu að Logi Einarsson, eftirmaður hennar á formannsstóli Samfylkingarinnar, hafi vakið máls á þessum afskriftum á þingi í mánudaginn 5. nóvember. Logi sagði:
„Það vekur aðdáun áhorfenda þegar lið snýr kappleik sér í vil á síðustu sekúndu. En hvað kallast það þegar ráðamaður með vitneskju, a.m.k. góða innsýn vegna stöðu sinnar, gerir það sama nokkrum klukkustundum fyrir efnahagshrun meðan tugþúsundir lenda í miklum skakkaföllum? Er það sjálfsbjargarviðleitni, siðleysi eða jafnvel heigulsháttur?
Nýlega birti Stundin upplýsingar um fjármálaleikfimi hæstv. fjármálaráðherra í kringum bankahrunið 2008. Þá var hann alþingismaður og tók virkan þátt í stjórnun efnahagsmála á vegum stjórnvalda í aðdraganda hrunsins. Ný gögn sýna að umsvifin voru miklu meiri en áður var talið.“
Það eru ósannindi hjá flokksformanninum að Bjarni Benediktsson hafi nýtt sér eitthvað á þessum tíma sem ekki blasti við öllum. Stundin lætur eins og Bjarni hafi haft sérstakar trúnaðarupplýsingar um slæma stöðu fjármálakerfisins eða stöðu Sjóðs 9 þegar hann tók ákvörðun um að færa sig úr Sjóði 9 í Sjóði 1 og 5 fimmudaginn 2. október, daginn eftir að þær forsíður sem hér fylgja birtust. Þrátt fyrir þær telur Logi Einarsson að um innherjamál hafi verið að ræða. Stundin lætur þess ekki getið að lokað var fyrir viðskipti með Sjóð 9 dagana 29/9 og 30/9 eins og þarna má sjá.