23.9.2020 11:55

Strikamerki vopn gegn veiru

Strikamerki spara mikla skriffinnsku. Það hefði ekki tekist að taka 4.525 sýni þriðjudaginn 22. september ef haldið væri utan um alla skráningu án strikamerkja.

Ef kemur í ljós eftir seinni sýnatökuna undir austurvegg sjúkrahússins á Selfossi í morgun (23. september) að kórónuveiran leynist í mér er hún lúmskari en hálkublettirnir á veginum frá Fljótshlíðinni út á Selfoss.

Tvöfaldri sóttkví minni lýkur þegar ég fæ niðurstöðu eftir ökuferðina til Selfoss. Þar voru skýrar merkingar við sjúkrahúsið sem vísuðu manni að bílastæði við austurhlið þess. Þrjár manneskjur biðu skimunar með meira en tvo metra á milli sín undir vegg hússins en í herbergi með dyr út að stæðinu var aðstaða fyrir tvær grænklæddar konur með andlitsgrímur. Þær tóku sýnin.

Fyrst var ég beðinn að sýna strikamerkið (embætti landlæknis kallar strikamerki stundum bar-kóða) sem ég fékk í snjallsímann minn þegar ég bókaði mig í heimkomu-sýnatöku og greiddi 11.000 kr. – Ég bókaði mig á Kaupmannahafnarflugvelli áður en ég fór í Icelandair-vélina heim föstudaginn 18. september. Sé fyrr bókað er gjaldið 9.000 kr.

StreikStrikamerkið opnaði mér allar leiðir á Keflavíkurflugvelli og nú aftur á Selfossi. Ég sagðist hafa fengið skilaboð í símann að ég ætti að vera á milli 10.15 og 10.30 á Suðurlandsbraut í Reykjavík en hefði frekar ákveðið að fara til Selfoss. Sú sem tók sýnið sagði allar áhyggjur ástæðulausar, sýnin enduðu öll í greiningu á sama stað og strikamerkið gilti.

Strikamerki spara mikla skriffinnsku. Það hefði ekki tekist að taka 4.525 sýni þriðjudaginn 22. september ef haldið væri utan um alla skráningu án strikamerkja. Þá greindust 57 ný innalandssmit kórónuveiru Um það bil helmingur þeirra var í sóttkví við greiningu. Þrír greindust með veirusmit á landamærunum. Einn var með mótefni, en þrír bíða mótefnamælingar.

Það verður spennandi að sjá þessar tölur á morgun en áður en þær birtast um kl. 11.00 hlýt ég að vita hvort ég megi fara úr sóttkvínni.

Tvöföld sóttkví verður einföld vegna strikamerkja. Ferðir mínar í höfuðstöðvar ríkisútvarpsins við Efstaleiti eru strjálar en þar var ég þó í viðtali á rás 2 þriðjudaginn 15. september. Sunnudaginn 20. september var hringt til mín og sagt að þeir sem hefðu verið í nágrenni við starfsmann í Efstaleiti þennan þriðjudag og síðar ættu að fara í sóttkví. Þegar sagðist nú þegar vera í „annarri“ sóttkví varð okkur báðum létt. Þar með þyrfti ekki að grípa til nýrra ráðstafana.

Síðar fékk ég svo formlegra símtal frá rakningateyminu vegna smitsins í Efstaleiti. Ég gerði viðmælanda grein fyrir stöðu minni og kom okkur saman um að ég þyrfti ekki að fara í sýnatöku vegna Efstaleitis-smitsins þriðjudaginn 22. september úr því að einu sinni hefði verið tekið neikvætt sýni 18. september og taka ætti annað 23. september. Þarna leysti strikamerkið sóttkvíarflækju.

Stafrænt Ísland er eitt af markmiðum stjórnvalda. Reynslan af strikamerkjum vegna COVID-19-faraldursins hlýtur að leggja grunn að einfaldari lausnum á fleiri sviðum í stjórnkerfinu almennt. Strikamerkið ógnar greinilega kennitölunni.

Þriðjudaginn 22. september birtist í BBC viðtal við forstjóra IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga, sem sagði að nú væri unnt að láta alla sem færu um borð í flugvél framkvæma sýnatöku og fá niðurstöðu fyrir brottför vélarinnar, þetta kostaði um 1.000 ísl. kr. Fara yrði þessa leið til að bjarga alþjóðlegum flugrekstri. Vonandi reynist þetta rétt.