28.9.2022 9:59

Stríðsaðgerð í bakgarði Dana

Þetta er með öðrum orðum dæmigerð fjölþátta (d. hybrid) stríðsaðgerð í því skyni að skapa ótta almennings við orkuskort á næsta vetri og ofurhátt orkuverð.

Full ástæða er að fylgjast náið með öllu sem varðar gaslekann úr Nord Stream 1 og Nord Stream 2, rússnesku gasleiðslunum um Eystrasalt frá Rússlandi til Þýskalands.

Fréttir um lekann bárust þriðjudaginn 27. september. Sænskir jarðskjálftafræðingar segja að mælst hafi mælst titringur af öflugum sprengjum á hafsbotni fyrir austan Borgundarhólm á Eystrasalti. Tvö göt eru á annarri leiðslunni, eitt á hinni. Skipa- og flugumferð er bönnuð á svæðinu. Þennan sama dag var Baltic Pipe gasleiðslan opnuð frá Noregi til Póllands. Pólverjar eru ekki lengur háðir gasviðskiptum við Rússa. Þá segir í fréttum að Þjóðverjum hafi tekist mun betur en horfði að tryggja sér gas fyrir veturinn, 90% af geymslurými þeirra sé fullt. Gasverð var tekið að lækka í Evrópu.

Einn fréttaskýrandi sagði atburðarásina minna á upphaf Bond-myndar. Skemmdarverk væri unnið í hafdjúpunum á gasleiðslum sem við venjulegar aðstæður ættu að tryggja orkuöryggi á meginlandi Evrópu. Nágrannaþjóðir segðu að leiðslurnar hafi verið sprengdar af ásetningi. Enginn vildi þó játa á sig verknaðinn. Leit hæfist að myrkrahöfðingjanum.

Istockphoto-1384327178-612x612_1664357784956

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, segir að greinilega sé um ásetningsverk að ræða. Hún bendir ekki á neinn geranda. Það gerir pólski forsætisráðherrann hins vega og segir Rússa þarna að verki. Sama segir náinn samstarfsmaður Úkraínuforseta.

Danskir sérfræðingar í öryggis- og varnarmálum hallast einnig eindregið að þeirri niðurstöðu að Rússar eigi hlut að máli, mikinn sprengikraft hafi þurft til að eyðileggja leiðslurnar. Dönsku sérfræðingarnir segja einnig að hafi þetta verið Rússar sé stríðið í Úkraínu komið í „bakgarð Dana“.

Kenneth Øhlenschlæger Buhl, herfræðingur og sérfræðingur í hafrétti og öryggi á höfunum við Forsvarsakademiet, háskóla danska hersins, segir við Jyllands-Posten miðvikudaginn 28. september að ekki sé unnt að skilgreina atvikið sem vopnaða árás Rússa á Danmörku en hins vegar megi líta á þetta sem íhlutun um innri málefni, gjörning á mörkum aðfarar að fullveldi ríkisins og vopnaðrar árásar.

Þetta er með öðrum orðum dæmigerð fjölþátta (d. hybrid) stríðsaðgerð í því skyni að skapa ótta almennings við orkuskort á næsta vetri og ofurhátt orkuverð – draga á þann hátt úr almennum stuðningi við Úkraínumenn og stuðla að sigri Rússa á vígvöllunum þar.

Rússar höfðu þegar skrúfað fyrir gassölu um Nord Stream 1. Nord Stream 2 komst aldrei í gagnið vegna innrásarinnar 24. febrúar 2022. Skemmdarverkið lokar leiðslunum endanlega. Það er aðgerð í ætt við herkvaðningu Pútins sem sýnir innilokaðan einræðisherra grípa til örvæntingarfullra aðgerða í von um að bjarga eigin skinni. Einangrun Pútins eykst hins vegar jafnt og þétt. Næsta skref hans kann að verða enn örlagaríkara – Rússatalið um beitingu kjarnavopna fær nýtt inntak.