13.11.2021 10:09

Stríð Sólveigar Önnu

Stríði Sólveigar Önnu er ekki lokið og hún eirir engu eða engum. Þeir sem svara henni eru úthrópaðir.

Nýjustu fréttir frá Eflingu-stéttarfélagi eru að bannað sé að ræða um Sólveigu Önnu Jónsdóttur og Viðar Þorsteinsson, fyrrv. formann og skrifstofustjóra, trúnaðarráði félagsins nema þau séu þar viðstödd. Frá þessu er skýrt í Morgunblaðinu í dag (13. nóv.) og einnig að Sólveig Anna hafi ítrekað óskað eftir að fá að koma á fund trúnaðarráðsins en þegar hún fékk loks svar við fyrirspurn sinni hætti hún við.

G8G1734SASólveig Anna Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson (mynd: Morgunblaðið/Eggert)

Sólveig Anna og Viðar stjórnuðu Eflingu meðal annars með þeirri aðferð að hóta öllum sem þau gagnrýndu öllu illu yrði skýrt frá stjórnarháttum þeirra út á við. Sólveigu Önnu mistókst að knýja starfsfólk Eflingar til þagnar með hótun um eigin afsögn ef það þegði ekki um harðræðið sem hún og Viðar beittu þá sem unnu á skrifstofu félagsins. Þegar hótunin bar ekki árangur sagði Sólveig Anna af sér og síðan Viðar. Nú stjórna þau þöggun um eigin stjórnarhætti úr fjarlægð með því að neita að standa fyrir máli sínu í trúnaðarráði félagsins.

Að kvöldi fimmtudags 11. nóvember birti Tryggvi Marteinsson eftirfarandi á FB-síðu sinni:

„Í dag var ég rekinn frá Eflingu. 27 ára starf var virt að vettugi enda kommúnistar við stjórn. Það er mikil reisn yfir þessu félagi og þetta var það fyrsta sem ný stjórn sýndi til að leysa vandann sem Sólveig skapaði.

Skömmin er mikil hjá þeim sem eru titlaðir yfirmenn í dag.“

Vegna þessara orða taka margir til máls á síðu hans. Meðal þeirra er Leifur Gunnarsson sem segir:

„Þetta er mikill missir fyrir félagsmenn Eflingar. Það eru fáir ef nokkrir sem ég hef rætt við sem hafa viðlíka þekkingu á vinnurétti og íslenskum vinnumarkaði og þú. Gangi þér vel í framhaldinu.“

Magnús M. Norðdahl segir:

„Ömurlegar fréttir kæri félagi - á löngum ferli mínum í störfum fyrir þetta stóra stéttarfélag hefur við mig aldrei orði verið á þig hallað - þvert á móti.“

Jón Vestmann segir:

„Þvílík skömm fyrir stjórnina enn einn skandallin Engin virðing fyrir starfsfólki eða vinnu þess . Gerendameðvirknin og hræðslan við Sólveigu Önnu og Viðar hún er ótrúleg Greinilega er ekki búið að afturkalla aftökulistann Og engin breyting á stjórnarháttum . Hvaða starfsmaður er næstur í röðinni Ætla vona að starfsmenn og hreyfingin standi með þér og mótmæli þessum brottrekstri .“

Magnús M. Norðdahl er lögfræðingur ASÍ og vegna kveðju hans til þessa brottrekna samstarfsmanns skrifaði Sólveig Anna lögfræðingi ASÍ opið bréf og sagði meðal annars:

„Ég tel að með framgöngu þinni hafir þú gert Alþýðusambandið vanhæft til aðkomu að málum sem snerta kynbundið ofbeldi og áreiti. Stofnun sem felur karli með þín viðhorf og hugmyndir um hvað telst ásættanleg opinber framganga í slíkum málum stöðu æðsta lögfræðivalds hefur tapað trúverðugleika sínum.“

Sólveig Anna sakar Tryggva um að hóta sér og heimili sínu „ofbeldisverkum“. Tryggvi ber þessa ásökun hennar af sér á FB-síðu sinni.

Stríði Sólveigar Önnu er ekki lokið og hún eirir engu eða engum. Þeir sem svara henni eru úthrópaðir.