29.6.2019 10:41

Straumar stjórnmálanna

Stefanía telur ríkisstjórnina standa sterka. Stjórnarandstöðuflokkarnir séu bitlausir. Stjórnin hafi tæpan meirihluta og haldi þess vegna vel utan um hóp sinn gagnvart stjórnarandstöðunni.

Á dv.is er laugardaginn 29. júní rætt við Stefaníu Óskarsdóttur, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, um stjórnmálaástandið eftir að sumarhlé varð á störfum alþingis. Henni finnst „ágæt samstaða“ í ríkisstjórninni enda hafi stjórnarflokkarnir ákveðið að vera ósammála um sumt en sammála um það sem máli skiptir til að skapa stöðugleika við stjórn landsins.

Stefanía telur ríkisstjórnina standa sterka. Stjórnarandstöðuflokkarnir séu bitlausir. Stjórnin hafi tæpan meirihluta og haldi þess vegna vel utan um hóp sinn gagnvart stjórnarandstöðunni, þá spanni hún pólitíska litrófið frá hægri til vinstri. Vegna málamiðlunar að baki slíkri stjórn telur hún hana ekki líklega „til að hrinda í framkvæmd mjög umdeildum stefnumálum. Stjórnarandstaðan verður þá bitlausari. Stjórnarandstaðan er í basli með að finna sína fjöl, fyrir utan Miðflokkinn í þessu orkupakkamáli, enda hefur ekki verið fljúgandi sigling á stjórnarandstöðuflokkunum í skoðanakönnunum. Það er ekki gefið að stjórnarandstöðunni gefist mikið færi á að ná flugi. Miðflokkurinn hefur verið í fókus út af andstöðunni við orkupakkann. Á móti kemur að flokkurinn var í miklum fókus fyrir jól í Klausturmálinu. Þá héldu sumir að þessi flokkur væri búinn að vera, en það mál hefur fallið í skuggann á þessari hörðu stjórnarandstöðu sem hefur verið haldið uppi í þinginu,“ segir Stefanía Óskarsdóttir.

569806Stefanía Óskardóttir.

Í samtalinu við Stefaníu er vikið nánar að þriðja orkupakkamálinu. Ákveðið var að fresta afgreiðslu málsins til ágústloka svo að miðflokksmenn fengju tækifæri til að glöggva sig betur á málinu en þeir sinntu því með hangandi hendi í utanríkismálanefnd alþingis og tóku í raun ekki við sér fyrr en í óralöngu málþófi. Bent er á að málið hafi verið notað til að skapa ólgu innan Sjálfstæðisflokksins en Stefanía telur ekki augljóst að það skaði flokkinn. Hugsanlega kunni einhverjir sjálfstæðismenn að ganga til liðs við Miðflokkinn en ef til vill hafi sá flutningur atkvæða þegar orðið í þingkosningunum árið 2017. Stefanía segir: „Þetta skapar nýja stöðu fyrir Sjálfstæðisflokkinn hvað varðar miðjufylgi og frjálslynt fylgi. Þannig að það eru kostir og gallar í þessari stöðu.“

Þetta er athyglisverð skoðun hjá Stefaníu Óskarsdóttur: að þeim mun meira sem miðflokksmenn og stuðningsmenn sjónarmiða þeirra í orkupakkamálinu lemji á Sjálfstæðisflokknum, forystu hans og þingflokki, því meiri líkur séu á að þeir sem halda sig á miðjunni eða aðhyllast frjálslynd viðhorf í alþjóðamálum gangi til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.