18.6.2024 10:31

Stórskjálfti í Samfylkingu

Nú þýðir ekki lengur fyrir Kristrúnu Frostadóttur að ræða útlendingamálin, það ýtir undir fleiri úrsagnir úr flokknum. Þá birtist Guðmundur Árni og gefur línuna.

Deilurnar innan Samfylkingarinnar vegna hjásetu þingmanna flokksins við atkvæðagreiðsluna um útlendingalagafrumvarpið á alþingi 14. júní magnast stig af stigi.

Þær eru mun djúpstæðari en ætla má af fréttum um úrsagnir úr flokknum því að þær snúast ekki aðeins um afstöðu til útlendingamálanna heldur sjálfa meginstefnuna sem flokksforystan, Kristrún Frostadóttir formaður og Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður, hafa mótað í von um að gera flokkinn stjórnhæfan að loknum kosningum.

Screenshot-2024-06-18-at-10.29.53

Varaformaðurinn segir í Morgunblaðinu í dag (18. júní) að kjarni þessa máls snúist ekki um útlendingamálin heldur að Samfylkingin taki „afstöðu til allra mála á þeim forsendum að við ætlum að iðka það sem við segjum og ekki bara vera með upphrópanir og andstöðu verandi í minnihluta, því við erum að búa okkur undir það að taka við landsstjórninni“.

Hann segir einnig: „Við höfum núna mælst í eitt og hálft ár sem langstærsti flokkurinn á Íslandi í skoðanakönnunum“ flokksmenn verði aldrei alltaf sammála um öll mál en að það sem skipti umfram allt mestu sé að Samfylkingin sé „á blússandi ferð“ og stefnan sé að halda henni áfram.

Helga Vala Helgadóttir, sem hrökklaðist úr þingflokki Samfylkingarinnar og af þingi í fyrra, lýsir þróuninni á þennan veg í færslu á Facebook 17. júní:

„Hvernig sér forysta Samfylkingarinnar fyrir sér að miðla málum í ríkisstjórn þegar öll grundvallarmálin eru fokin áður en í kosningarnar er komið? Hvernig getur flokkur sem fyrir örstuttu síðan stóð fyrir mannúð, jöfnuði og samkennd með fólki í viðkvæmri stöðu sleppt því að taka afstöðu í svona grundvallarmáli? Hvað munum við þá sjá þegar flokkurinn þarf raunverulega að fara í málamiðlanir?“

Tekist er á um sjónarmið Guðmundar Árna annars vegar innan Samfylkingarinnar, að flokkurinn eigi að sýna nýja andlitið áfram til að ganga í augun á kjósendum, og sjónarmið Helgu Völu Helgadóttur hins vegar um að flokkurinn skilgreini grundvallarmál sem hann setji á oddinn og slái ekki af þeim fyrr en þau hafi leitt hann til valda.

Þeir sem þekkja innviði flokksins vissu hvað klukkan sló strax 10. febrúar sl. þegar Kristrún Frostadóttir boðaði nýja útlendingastefnu flokksins til að afmá óbragðið vegna tjaldbúða hælisleitenda á Austurvelli í boði Dags B. Eggertssonar. Við blöstu hörð innanflokksátök. Gamlir leiðtogar voru kallaðir á vettvang til að bera klæði á vopnin og sjálfur Ólafur Þ. Harðarson birtist í fréttatíma RÚV, hlutlausi stjórnmálafræðingurinn að þessu sinni að vísu til að breiða yfir djúpstæðan ágreining flokkssystkina sinna.

Feluleikurinn skilaði engu eins og sannaðist á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar 20. apríl sl. Þar tókst ekki að ná saman um stefnuna í útlendingamálum. Þingflokkurinn er klofinn ofan í rót í málaflokknum.

Nú þýðir ekki lengur fyrir Kristrúnu Frostadóttur að ræða útlendingamálin, það ýtir undir fleiri úrsagnir úr flokknum. Þá birtist Guðmundur Árni og gefur línuna: Boðum nýja stefnu til að skora hátt í skoðanakönnunum.