26.2.2019 10:27

Stórpólitísk stefnubreyting í kjaramálum

Stefnubreytingin er stórpólitískt mál og megi ekki ræða óraunhæfu kröfugerðina í tengslum við raunveruleikann er voðinn vís.

Þegar hér hefur verið vakin athygli á pólitískri hlið á baráttu fjórmenningarklíkunnar og boðun verkfalla hafa borist athugasemdir í þá veru að ósæmilegt sé að ræða mál á þann veg sem hér er gert. Hvort ekki sé fyrir hendi neinn skilningur á bágum kjörum launafólks?

Einfalda svarið við spurningunni er að einmitt vegna umhyggju fyrir kjörum láglaunafólks sé ástæða til að vara við aðferðum fjórmenningarklíkunnar.

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent í viðskiptafræðideild HÍ, vekur athygli á því í Morgunblaðinu í morgun (26. febrúar) að nú hafi verkalýðsforystan horfið frá meginmarkmiðinu við gerð kjarasamninga á tímum þjóðarsáttarsamninganna, það sé ekki lengur markmiðið að viðhalda stöðugleika og sérstaklega að halda aftur af verðlagsþróun með því að fara fram á hófstilltar kauphækkanir.

GetFileMyndin birtist á forsíðu Morgunblaðsins föstudaginn 22. febrúar og sýnir Stefán Ólafsson, hagfræðilegan ráðunaut Eflingar, Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóra Eflingar, og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, á leið frá ríkissáttasemjara eftir að hafa slitið viðræðum til að geta hafið verkfallsbaráttuna. Ljósm. Eggert.

Einstæð kaupmáttaraukning undanfarinna ára á rætur í þessum stöðugleika og varnaraðgerðum gegn verðbólgu.

Stefnubreytingin er stórpólitískt mál og megi ekki ræða óraunhæfu kröfugerðina í tengslum við raunveruleikann er voðinn vís. Kröfurnar snúa að verulegu leyti að stjórnmálamönnum. Þegar þeir segja skoðun sína rjúka æstustu verkalýðsforingjarnir upp á nef sér, ekki endilega vegna þess sem sagt er heldur vegna þess að einhver stjórnmálamaður skuli „dirfast“ að tala til þeirra.

Fjórmenningarklíkan er í stjórnmálabaráttu. Henni er stjórnað frá skrifstofu Eflingar-stéttarfélags þar sem höfundur laga um nýstofnaðan Sósíalistaflokks Íslands hefur búið um sig sem framkvæmdastjóri. Hann nýtur aðstoðar annars höfundar Sósíalistaflokksins, Gunnars Smára Egilssonar áróðursmeistara. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, er einnig í forystu Sósíalistaflokksins. Hún komst til valda í Eflingu með stuðningi lítls brots af félagsmönnum. Fyrsta verkið var „hreinsun“ á skrifstofu félagsins. Allt samkvæmt byltingarbókinni.

Sé stjórnmálastörfum þessa fólks andmælt er það talin aðför að láglaunafólki! Því fólki er nú beitt fyrir vagninn vegna verkfalls 8. mars. Þetta er fólkið sem fyrst missir vinnuna eftir að tekist hefur að rústa ferðaþjónustunni með verkfallsaðgerðunum.

Það er ekki nema von að öllum ráðum sé beitt til að hindra að varpað sé ljósi á áform fjórmenningarklíkunnar og afleiðingar þeirra.