9.9.2025 10:51

Støre hélt velli í Noregi

Miðað við hrikalega stöðu Verkamannaflokksins og óvinsældir Støre undir lok árs 2024 er kraftaverki líkast að hann auki nú fylgi sitt í kosningum.

Nú liggur fyrir hvernig 169 sæti á norska stórþinginu skiptast milli flokkahópanna til vinstri og hægri eftir kosningarnar mánudaginn 8. september: vinstri blokkin fékk 87 þingmenn en sú hægri 82.

Jonas Gahr Støre, formaður Verkamannaflokksins, verður áfram forsætisráðherra með stuðningi fjögurra minni flokka. Verkamannaflokkurinn fékk 28,2%, bætti við sig 1,9% og hann hefur 53 þingmenn. Miðflokkurinn, Sósíalíski vinstri flokkurinn og Rauðir með 9 þingmenn hver flokkur og Græningjar með 7 þingmenn mynda vinstri blokkina.

Í hægri blokkinni eru Framfaraflokkurinn með 23,9%, bætti við sig 12,3%, hefur 48 þingmenn, Hægriflokkurinn með 14,6%, tapaði 5,7%, hefur 24 þingmenn og Kristilegi þjóðarflokkurinn með 4,2%, bætti við sig 0,4%, og komst með 7 þingmenn yfir 4% þröskuldinn.

Screenshot-2025-09-09-at-10.49.23

Jons Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, fagnar sigri að kvöldi 8. september 2025.

Miðað við hrikalega stöðu Verkamannaflokksins og óvinsældir Støre undir lok árs 2024 er kraftaverki líkast að hann auki nú fylgi sitt í kosningum.

Raunar var gæfuspor flokksins að þeir félagarnir Støre og Jens Stoltenberg ákváðu í byrjun febrúar 2025 að sá síðarnefndi sneri sér að nýju að heimastjórnmálum eftir að hafa stýrt NATO í áratug. Eftir að Stoltenberg varð fjármálaráðherra urðu þáttaskil í norskum stjórnmálum.

Skömmu áður hafði Miðflokkurinn (Senterpartiet) sagt skilið við stjórnina og ætlaði forysta hans sér meðal annars að græða á óánægju með raforkuverð og samstarfið við ESB í orkumálum. Stoltenberg sá við því með ákvörðun um Norgespris á raforku, það er opinbert styrkjakerfi sem tryggir fast raforkuverð án tillits til sveiflna á markaðsverði. Kerfið gagnast þeim best sem búa í suðurhluta Noregs, fjölmennasta hluta landsins.

Miðflokkurinn galt afhroð í kosningunum núna, fékk aðeins 5,6% atkvæða, tapaði 7,9%.

Líklegt er að Støre leiði áfram minnihlutastjórn Verkamannaflokksins og leiti samninga við flokkana fjóra og síðan yfir á hægri vænginn þegar nauðsyn þykir. Raunar var barist um miðjufylgið með svipuðum stefnumálum flokkanna, helsta ágreiningsefnið var um fastheldni vinstri flokkanna við auðlegðarskattinn sem hrakið hefur marga auðmenn frá Noregi en sósíalistar telja að geri samfélagið betra með auknum jöfnuði.

Leiðtogakapphlaup var á hægri vængnum milli Ernu Solberg, leiðtoga Hægriflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, og Silvi Listhaug, formanns Framfaraflokksins, sem sigraði kosningabaráttuna með mikilli fylgisaukningu flokks síns. Hún lagði ríka áherslu á harðari stefnu í útlendingamálum og varðstöðu um norsk þjóðargildi.

Dagar Ernu Solberg sem flokksleiðtoga eru taldir og verður nú uppgjör í Hægriflokknum – hún axlar ábyrgð á fylgistapinu.

Af fréttum íslenska ríkisútvarpsins af norsku þingkosningunum mátti ætla að aðild að ESB hefði borið hátt. Það var einfaldlega tilbúningur fréttastofunnar til heimabrúks í þágu ríkisstjórnarflokkanna hér sem láta eins og það sé pólitískt lífsspursmál að stofna til ESB-deilna. Norskir stjórnmálamenn vilja það ekki.