30.9.2025 10:03

Stoltenberg skrifar samtímasögu

Þá segir Stoltenberg frá örlagaríkum ríkisoddvitafundi NATO í Brussel 2018 þegar lá við að Trump færi út í fússi vegna þess hve krafa hans um meira evrópskt fé til varnarmála fékk daufar undirtektir, einkum hjá Þjóðverjum.

Jens Stoltenberg, fyrrverandi framkvæmdastjóri NATO og núverandi fjármálaráðherra Noregs, sendi í vikunni frá sér bók um störf sín hjá NATO, På min vakt - at lede NATO í krigstid. Bókin hefur greinilega að geyma merkan kafla samtímasögunnar, megi marka kafla úr henni sem birtast í norskum fjölmiðlum. Hún sýnir einnig að Stoltenberg dregur ekkert undan.

Í dag (30. september) beinir Frode Andresen á norsku vefsíðunni altinget.no athygli að gagnrýni Stoltenbergs á Emmanuel Macron Frakklandsforseta sem hann segir að fái það „óþvegið“ í bókinni.

Frakkar hafa löngum verið þekktir fyrir að vilja fara sínar eigin leiðir innan NATO. Það hefur greinilega ekki breyst undir forsæti Macrons. Segir Stoltenberg að franskir diplómatar og háttsettir embættismenn hafi leynt og ljóst reynt að „vængstýfa“ sig.

Árið 2019 lýsti Macron NATO sem „heiladauðu“ í viðtali við The Economist. Stoltenberg segir að ummælin hafi ef til vill endurspeglað þreytu Macrons á Trump. Á hinn bóginn hafi Frakklandsforseti líka viljað styrkja stöðu ESB í varnarmálum og þar með hlut Frakka í öryggismálasamstarfi í Evrópu.

Screenshot-2025-09-30-at-09.51.29

Seinna árið 2019 heimsótti Stoltenberg Donald Trump í Washington og segir:

„Þegar ljósmyndararnir voru farnir beindist talið eðlilega fljótt að Frakklandi. Trump slátraði Macron fyrir heiladauða-ummælin. „Virðingarlaus og móðgandi yfirlýsing. Þú getur ekki gengið um og talað svona um NATO,“ sagði hann. Hann taldi að NATO ætti í raun aðeins við eitt vandamál að stríða, og það væri Frakkland.

Hvað finnst þér um Macron? Honum gengur ekki svo vel í NATO, er það nokkuð?‘ spurði Trump. Ég svaraði því ekki beint, heldur útskýrði að útspil Macrons fengi ekki stuðning annarra Evrópumanna.“

Þá segir Stoltenberg frá örlagaríkum ríkisoddvitafundi NATO í Brussel 2018 þegar lá við að Trump færi út í fússi vegna þess hve krafa hans um meira evrópskt fé til varnarmála fékk daufar undirtektir, einkum hjá Þjóðverjum.

Stoltenberg segir: „Nú fer allt í vaskinn, hugsaði ég. Ég leit yfir salinn. Allir skildu að þetta var að hrynja. Allur fundurinn, allar yfirlýsingar um samstöðu. Og með því var NATO í bráðri hættu“.

Stoltenberg lýsir því að hann hafi þá gefið Mark Rutte, þáverandi forsætisráðherra Hollands, orðið, en ekki Macron. Rutte notaði tækifærið til að hrósa Trump fyrir að fleiri NATO-ríki hefðu aukið varnarútgjöld sín.

Þá fékk Stoltenberg miða frá Trump og öllu var borgið:

„Eftir smástund tók Trump upp þykka, svarta tússpennann sem hann notaði alltaf, skrifaði eitthvað á miða, hallaði sér að mér og rétti mér miðann. Ég tók eftir því að rithönd hans var nokkuð falleg og hrein. Þar stóð: „Framkvæmdastjóri, ef þú getur sagt að bandalagsríki NATO hafi aukið varnarútgjöld sín verulega þökk sé mér, þá held ég að við getum náð samkomulagi“.“

Þeir sem fylgdust með blaðamannafundi Stoltenbergs eftir fundinn 2018 minnast þess að hann lét þess getið að barátta Trumps fyrir auknum útgjöldum Evrópuríkja til varnarmála hefði borið árangur.