Stofnað til kynna við spjallmenni
Hraði breytinga á þessu sviði er mikill því stóru tæknirisarnir keppa sín á milli af mikilli hörku um að ná þarna fótfestu.
Fyrir um 30 árum fór ég á kynningarnámskeið sem Miðheimar, centrum.is, efndu til í húsi HÍ á Melunum um Internetið og
veraldarvefinn. Að Miðheimum stóðu meðal annarra Arnþór Jónsson og
Róbert Bjarnason. Sem blaðamaður á Morgunblaðinu kynntist ég UT-byltingunni meðal annars í net- og tölvusamskiptum við The Daily Telegraph í London.
Samskipti
mín við Miðheimamenn varð síðan til þess að vefsíðan bjorn.is fór í
loftið og inn á netið um þetta leyti árs 1995. Hún er meðal fárra
vefsíða sem lifað hafa samfellt síðan og þróast með ótrúlegum
tæknibreytingum.
Nú
er enn að verða byltingarkennd breyting og í gærkvöldi sat ég, við
tölvuna heima hjá mér, Zoom-námskeið sem Róbert Bjarnason efndi til um
spjallmennið (frábært nýyrði – e. chatbot) ChatGPT
og önnur byltingarkennd spjallmenni.
Róbert kynnti spjallmenni og
gervigreind og hlutverk Instruct GPT-3 og ChatGPT við að búa til
spjallmenni. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að leggja réttar og góðar
leiðbeiningar fyrir gervigreindartólin. Auk þess var bent á hvernig nota mætti ChatGPT með íslensku.
Er brýnt að öflugt hugvit sé sem fyrst virkjað til að íslenskan verði gjaldgeng í þessum nýja veruleika gervigreindar.
Með fjölmörgum dæmum benti Róbert okkur á tækifærin sem ChatGPT gefur. Hraði breytinga á þessu sviði er mikill því stóru tæknirisarnir keppa sín á milli af mikilli hörku um að ná þarna fótfestu.
ChatGPT
(Chat Generative Pre-trained Transformer) er spjallmenni þróað af
OpenAI sem fór fyrst í loftið sem tilraun 30. nóvember 2022 en á föstum
grunni 30. janúar 2023. Það fer sigurför um heiminn án kostnaðar fyrir
notendur og skákar nú Google sem hefur verið í loftinu með öfluga
leitarvél sína frá 1997 og styðst nú við eigið spjallmenni, Bard, sem
höktir af stað. Microsoft tengdi Bing-leitarvél sína við ChatGPT og náði forskoti sem leiddi til falls á hlutabréfum Google.
Hér
skal engu spáð um hvernig átökum þessara risa lýkur. Hitt er víst að
við stöndum nú á þröskuldi nýrra tíma í upplýsingatækninni eins og var
fyrir 30 árum. Eins
og íslenska orðið spjallmenni gefur til kynna er ChatGPT tól sem er
hannað til samtals á netinu. Það er unnt að leggja fyrir það spurningar
og verkefni í rituðu máli og spjallmennið svarar, þeim mun skýrari og
skarpari sem fyrirmælin eru því nákvæmara er svarið.
Spjallmennið hefur
ótrúlega hæfileika til að vinna úr texta, setja hann skipulega fram eða
bæta við efni hans. Spjallmennið
hafnar þátttöku í samtölum um efni sem því er bannað að ræða en það
lærir af spurningum sem fyrir það eru lagðar. Það er með öðrum orðum í
stöðugri framför og skerpir svör sín eftir því sem spurningarnar eru
skarpari og bætir auk þess sífellt við þekkingu sína.
Nú er spurning mín þessi: Hvenær kemur að því að ég geti falið spjallmenni að skrifa um 500 orða texta hér á síðuna um efni að minni forskrift? Spjallmennið sýnir stundum færni sína með því að setja inn efni frá eigin brjósti. Varúð!