23.8.2018 10:12

Stofnað til farsa í forsætisnefnd

Vill borgarstjóri, æðsti yfirmaður stjórnsýslu borgarinnar, ekki taka efnislega afstöðu til málsins heldur skýtur því til forsætisnefndar borgarstjórnar.

Embættismenn Reykjavíkurborgar hafa gengið of langt í aðfinnslum við kjörna fulltrúa borgarbúa. Þetta hófst strax eftir fyrsta fund nýrrar borgarstjórnar 19. júní þegar skrifstofustjóri borgarstjórnar vildi kæra borgarfulltrúa fyrir siðanefnd sveitarfélaga vegna orða sem féllu á fundinum.

Þá færðist ágreiningur embættismannanna við borgarfulltrúa inn á vettvang borgarráðs. Var Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, sökuð um trúnaðarbrot og að rangtúlka á Facebook niðurstöðu í dómsmáli þar sem skrifstofustjóri borgarstjóra braut gegn stjórnsýslulögum við meðferð máls undirmanns síns. Embættismennirnir sem áttu hlut að máli báru þessar sakir á Vigdísi auk þess sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri gerir það í Morgunblaðinu í dag (23. ágúst). Í blaðinu segir:

„Mun borgarstjóri aðhafast í málinu, til dæmis með því að áminna borgarritara og skrifstofustjórann?

„Mér finnst eðlilegt að forsætisnefnd fari yfir málið og facebook-færslu Vigdísar Hauksdóttur. Ég ber fullt traust til borgarritara og það var mjög eðlilegt að hann brygðist við málinu í fjarveru minni þó að það eigi sér fá fordæmi eða kannski einmitt vegna þess,“ segir Dagur.“

69873986Eins og af þessu sést vill borgarstjóri, æðsti yfirmaður stjórnsýslu borgarinnar, ekki taka efnislega afstöðu til málsins heldur skýtur því til forsætisnefndar borgarstjórnar.

Hlutverk nefndarinnar er meðal annars að fjalla um álitamál varðandi málsmeðferð í stjórnsýslu og stjórnkerfi Reykjavíkurborgar sem til hennar er vísað. Nefndin hefur ekkert umboð til að taka á starfsmannamálum. Skrifstofustjóri borgarstjórnar sem samdi minnisblaðið undarlega eftir borgarstjórnarfundinn 19. júní er framkvæmdastjóri forsætisnefndarinnar.

Í nefndinni sitja Dóra Björt Guðjónsdóttir, pírati, forseti og varaforsetarnir Pawel Partoszek frá Viðreisn og Guðrún Ögmundsdóttir frá Samfylkingu. Minnihlutaflokkarnir eiga áheyrnarfulltrúa í nefndinni. Að nefndin hafi ritskoðunarvald vegna þess sem borgarfulltrúar segja á Facebook er af og frá.

Nú er ætlunin að breyta ofríki embættismanna í garð minnihluta borgarstjórnar í farsa í forsætisnefnd. ­– Hvers vegna skyldi borgarstjóri ekki þora að taka á málinu?