18.1.2022 10:22

Stöðnuð stjórnarandstaða

Við upphaf þingstarfa eftir jólaleyfi í janúar 2022 er stjórnarandstaðan í sömu sporum í janúar 2009 – með síbylju nöldursins.

Enn má sjá að ofarlega er í huga margra þingmanna sem sátu í stjórnarandstöðu í janúar 2009 þegar þing kom saman að loknu jólaleyfi að þá var á dagskrá alþingis frumvarp þingmanna umað heimila ætti sölu áfengis í matvöruverslunum.

Forseti þingsins setti þá eins og nú á dagskrá þau mál sem lágu fyrir sem þingmál. Þau raðast að jafnaði inn í þeirri númeraröð sem þau berast til þingsins. Varð þetta einfalda þingtæknilega atriði að stórmáli í augum stjórnarandstæðinga í upphafi fundar 20. janúar 2009. Rifja þeir það enn upp eins og sjá má til dæmis í nýrri endurminningabók Ögmundar Jónassonar, fyrrv. ráðherra og þingmanns, sem segir:

„Það [málið] hafði verið næst á dagskrá eins og fyrir kaldhæðni örlaganna. Minnti svolítið á fiðkuleik í Róm fyrir löngu þegar eldar loguðu þar. Súrrealískt. Það skynjuðu allir. Ekki síst stjórnarmeirihlutinn. Menn fundu til vanmáttar og úrræðaleysis.“

Ögmundur Jónasson lætur þess ógetið að fyrsti flutningsmaður málsins, Sigurður Kári Kristjánsson, tók það af dagskrá þingsins. Kynni menn sér umræður á þessum þingfundi fer því víðs fjarri að ekki hafi verið rætt um stöðuna í þjóðfélaginu.

Depositphotos_71225147-stock-photo-checkmate-by-a-pawnKenningar um að dagskrá þingsins hafi af pólitískum ástæðum verið ákveðin á þennan hátt eiga hvorki nokkuð skylt við það sem þingforseti kynnti stjórnarandstöðunni fyrir þingfundinn né við andrúmsloftið sem ríkti meðal stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar á þessum tíma þegar örþreyttir lögreglumenn stóðu nótt sem nýtan dag vörð um þinghúsið og vörnuðu því að ráðist yrði inn í það eins og gerðist í janúar 12 árum síðar í Washington, öllum til niðurlægingar.

Í janúar 2009 stóðu íslenska ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar frammi fyrir miklu alvarlegri viðfangsefnum en sneru að því sem stjórnarandstaðan gerði að höfuðmáli. Allir vissu að með einfaldri ákvörðun mátti breyta dagskrá þingsins og taka fyrir það sem brýnast þótti. Stjórnarandstaða þess tíma hafði hins vegar ekkert annað til málanna að leggja en upphrópanir og hneykslan.

Nú þegar alþingi kemur saman að loknu jólaleyfi og ríkisstjórnin og meirihluti hennar stendur að því að framlengja fjárhagslegan stuðning við fyrirtæki með frumvarpi fjármálaráðherra, sem efnislega hefur verið margrætt á þingi, rjúka þingmenn Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar í ræðustól æfir af hneykslun yfir að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sé fjarverandi, í fríi með fjölskyldu sinni eftir að hafa glímt við COVID-19 yfir hátíðirnar.

Þúsundir Íslendinga leggja nú land undir fót og taka sér nokkurra daga frí í útlöndum. Í augum stjórnarandstæðinga er það „móðgun“ við þá að fjármálaráðherra sé í þeim hópi.

Fjarvera fjármálaráðherra breytti í raun engu um störf alþingis á fyrsta degi eftir jólaleyfi. Þingmenn stjórnarandstöðunnar fluttu hins vegar aðeins síbylju nöldursins. Séu einhverjir ófærir um að ræða efni máls nú eða í janúar 2009 eru það þingmenn stjórnarandstöðunnar.