11.10.2018 9:44

Stjórnsýsla í molum vegna bragga og kirkjugarðs

Þegar litið er á gang málanna í Nauthólsvík og Víkurkirkjugarði blasir við stjórnleysi og sleifarlag á ábyrgð borgarstjóra.

Í Morgunblaðinu í morgun (11. október) segir að Minjastofnun hafi ekki fengið í hendur skýrslu Völu Garðarsdóttur fornleifafræðings um fornleifauppgröftinn á Landssímareitnum í miðborg Reykjavíkur 2016 til 2017. Von hafi verið á skýrslunni 1. júní, fyrir rúmum fjórum mánuðum, en hún hafi ekki borist og ekki er vitað um skiladag. Vala vill ekki greina Morgunblaðinu frá helstu niðurstöðum fornleifarannsóknarinnar, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli.

Þeir sem standa að byggingu hótels á þessum reit og jarðraski í Víkurkirkjugarði hafa þó vísað til Völu því til stuðnings að gagnrýni varðveislumanna sé haldlaus.

Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri yfir Landsímareitnum, sagði til dæmis í yfirlýsingu 26. september 2018, eftir að heiðursborgarar Reykjavíkur birtu borgarstjóra yfirlýsingu sína til varnar Víkurkirkjugarði:

„Víkur þá sögunni að umfangsmikilli fornleifarannsókn sem fór fram á reitnum undir eftirliti og í samráði við Minjastofnun. Vala Garðarsdóttir, fornleifafræðingur, leiddi rannsóknina og eins og hún hefur áður bent á í skrifum sínum þá leiddi sú rannsókn í ljós að þær kynslóðir sem nú hafa áhyggjur af fornminjum á Landssímareitnum hafa því miður ekki gætt að sér þegar var framkvæmt þar á árum áður“

Hvaða lesanda grunar að Vala hafi ekki skilað niðurstöðum sínum? Ber að túlka þögn hennar eftir þessa yfirlýsingu á þann veg að hún geri ekki athugasemdir við raskið í garðinum?

IMG_7207Hér sést Nauthólsvíkurbragginn frægi. Í baksýn er Háskólinn í Reykjavík en aðstaða í bragganum var upphaflega tengd starfsmönnum þar. Nú má njóta veitinga í honum eins og hverju öðru veitingahúsi. Við steinvegginn umhverfis garðhúsgögnin eru strá sem flutt voru inn frá Danmörku til að skapa strandstemmningu við braggann.

Í Fréttablaðinu í morgun uppýsir Örn Þórðarson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, að hann hafi sem fulltrúi flokksins í innkauparáði borgarinnar á síðasta kjörtímabili gert athugasemd vegna Nauthólsvíkurbraggans 22. desember 2017 og síðan aftur 27. janúar 2018 en þá hafi sér verið skýrt frá því að borgarlögmaður hefði málið í sínum höndum. Örn segir:

„Borgarstjóri hefði átt að taka eftir þeim viðvörunarbjöllum sem látnar voru glymja í fundargerðum Innkauparáðs, fyrirspurnum til borgarlögmanns, athugasemdum ráðsmanna og ábendingum. Allar þessar viðvaranir voru skráðar í fundargerðum, sem voru síðan færðar fyrir borgarráð og borgarstjórn, til staðfestingar. Til staðfestingar!“

Þegar litið er á gang málanna í Nauthólsvík og Víkurkirkjugarði blasir við stjórnleysi og sleifarlag á ábyrgð borgarstjóra. Í braggamálinu leiðir það til fjárausturs á kostnað útsvarsgreiðenda í kirkjugarðsmálinu leiðir það til rofs á grafarró.