Stjórnsýsla Dags B. í molum
Hvert um sig bera þessi mál vondri stjórnsýslu vitni. Þau gerast öll á vakt sama embættismannsins, Dags B. Eggertssonar.
Stjórnsýsla Reykjavíkurborgar undir stjórn Dags B. Eggertssonar borgarstjóra er í molum ef marka má fjögur nýleg dæmi:
5. júní 2018
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmir Reykjavíkurborg til að greiða starfsmanni Ráðhúss Reykjavíkur skaðabætur vegna slæmrar framkomu skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Fer dómarinn hörðum orðum um athæfi skrifstofustjórans: „Um þá skilyrðislausu hlýðni sem skrifstofustjórinn virðist ætla af stefnanda verður sagt það eitt að þrátt fyrir stjórnunarrétt annars og hlýðniskyldu hins eru undirmenn ekki dýr í hringleikahúsi yfirmanna sinna.“
2. júlí 2018
Kærunefnd jafnréttismála telur Reykjavíkurborg hafa brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu borgarlögmanns á árinu 2017.
Ráðhús Reykjavíkur.
11. júlí 2018
Umboðsmaður alþingis segir að við úrlausn á húsnæðisvanda utangarðsfólks hjá Reykjavíkurborg skorti á að borgaryfirvöld tryggi utangarðsfólki, svo fullnægjandi sé, aðstoð við lausn á bráðum húsnæðisvanda í samræmi við ákvæði laga nr. 40/1991, eins og þau verði túlkuð í ljósi 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og fjölþjóðlegra mannréttindareglna. Umboðsmaður kemst einnig að þeirri niðurstöðu að reglur Reykjavíkurborgar um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur fullnægi ekki kröfum sem gera verði til skýrleika reglna um skilyrði sem í reynd eru sett fyrir úthlutun húsnæðis.
15. júlí 2018
Mannréttinda- og lýðræðisráð borgarinnar samþykkir að öll salerni starfsfólks í stjórnsýsluhúsum Reykjavíkurborgar skuli gerð ókyngreind frá og með haustinu. Vinnueftirlitið fær veður af áformunum í fjölmiðlum. Samþykktin stangast á við 22. gr. reglugerðar um húsnæði vinnustaða frá árinu 1995. Þar segir að á vinnustöðum þar sem starfa fleiri en fimm karlar og fimm konur skuli salerni og snyrting fyrir hvort kyn aðgreind. Kristinn Tómasson, yfirlæknir vinnueftirlitsins, segir í ríkisútvarpinu að málið sé til skoðunar hjá eftirlitinu. Í nútímasamfélagi sé viðurkennt að breyta reglum fyrst, svo megi breyta framkvæmdinni.
Hvert um sig bera þessi mál vondri stjórnsýslu vitni. Þegar þau gerast öll á vakt sama embættismannsins, Dags B. Eggertssonar, er óskiljanlegt að myndast hafi meirihluti í borgarstjórn 19. júní 2018 um að hann gegni embætti sínu áfram næstu fjögur ár og það þrátt fyrir að hafa verið hafnað í borgarstjórnarkosningunum.