Stjórnmálaharka eykst austan hafs og vestan
Á tíma þessara átaka á æðstu stöðum í Bretlandi færist aukin harka í deilur demókrata og repúblíkana í Bandaríkjunum.
Umræðurnar í neðri málstofu breska þingsins voru harðar eftir að þingmenn komu saman að nýju miðvikudaginn 25. september í krafti einróma niðurstöðu Hæstaréttar Bretlands um að þingið hefði í raun aldrei verið sent heim.
Undir árásum um að þeir hefðu brotið lög sögðu ráðherrar Íhaldsflokksins að þeir hefðu litið lögin öðrum augum en hæstiréttur enda hefðu dómararnir samið nýja lagareglu með dómi sínum. Þeir myndu virða þessa reglu. Þeir bentu á að yrði ávallt krafist afsagnar lögfræðinga sem hefðu aðra skoðun en birtist í niðurstöðu dómstóla væri starfsöryggi þeirra ekki mikið. Það væri hluti lögfræðinnar að menn væru ekki sammála um hvernig túlka bæri lög.
Þá sóttu íhaldsmennirnir af hörku gegn andstæðingum sínum og hvöttu þá til að flytja tillögu um vantraust eða styðja tillögu um að rjúfa þing og boða til kosninganna. Um þetta þögðu stjórnarandstæðingar.
Boris Johnson gaf ekkert eftir í þingumræðunum miðvikudaginn 25. september.
Athygli beinist þó ekki að þessum málflutningi heldur hörkunni í orðavali forsætisráðherrans Boris Johnsons. Hann er meðal annars sakaður um ómálefnalega afstöðu með því að kalla nýsamþykkt lög um að fresta brexit fram yfir 31. okt. „uppgjafar-lög“ e. surrender bill. Þá þykir hann hafa óvirt minningu Jo Cox sem var andvíg brexit og sat á þingi fyrir Verkamannaflokkinn þegar hún var myrt árið 2016. Gerðu flokkssystur Cox hróp að Johnson í þingsalnum.
Það reyndi á stuðning þingmanna við ríkisstjórnina í atkvæðagreiðslu fimmtudaginn 26. september um það hvort gera eigi þinghlé í næstu viku þegar Íhaldsflokkurinn heldur árlegt þing sitt. Venja er að tillögur af þessu tagi séu samþykktar til að auðvelda ráðherrum og þingmönnum að sækja þingið. Að þessu sinni var tillagan felld með 306 atkv. gegn 289. Ríkisstjórnin ræður hins vegar dagskrá þingsins og hefur sett óumdeild mál á dagskrá mánudag og þriðjudag í næstu viku.
Á tíma þessara átaka á æðstu stöðum í Bretlandi færist aukin harka í deilur demókrata og repúblíkana í Bandaríkjunum þar sem demókratar í fulltrúadeild þingsins hafa stofnað til málaferla gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Uppljóstrari kom á framfæri upplýsingum sem eiga við rök að styðjast um að Donald Trump bað forseta Úkraínu að ýta á eftir rannsókn geg Joe Biden, hugsanlegum keppinaut sínum í forsetakosningunum í nóvember.
Uppljóstrarinn birti fimmtudaginn 26. september bréf þar sem hann/hún segir að háttsettir embættismenn forsetans hafi gert ráðstafanir til að lock down allar skrár um símtal Trumps við forseta Úkraínu, einkum orðrétta útskrift á símtalinu sem skráð var í Hvíta húsinu eins og venjulega sé gert. Sýni þetta hve alvarlegum augum embættismennirnir litu efni símtalsins.
Yfirheyrslur vegna þessa máls eru hafnar á Bandaríkjaþingi og hitnar nú enn í kolunum þar eins og á breska þinginu.