11.1.2022 12:08

Stjórnmálafræði Fréttablaðsins

Af fyrirsögninni mætti ráða að fleiri en Ólafur Þ. Harðarson væru þeirrar skoðunar sem að ofan er lýst. Svo er þó í ekki.

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði HÍ, setur mikinn svip á miðla Torgs ehf. í dag (11. janúar) með ummælum í einum miðlanna, flaggskipinu sjálfu, Fréttablaðinu, um að mál fimm karla sem hefur verið í fréttum undanfarið vegna ásakana um kynferðisbrot gegn Vítaliu Lazarevu, „hjálpi ekki“ Sjálfstæðisflokknum. Er þetta reist á þeirri fullyrðingu í miðlum Torgs að „flestir fimmmenningana“ hafi haft einhverjar tengingar við Sjálfstæðisflokkinn. Á grundvelli þessa segir prófessorinn:

„Augljóslega hjálpar þetta ekki flokknum. Spurningin er hvort málið hefur áhrif á einhverja stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks. Viðhorf þeirra eru ekki endilega þau sömu og viðhorf stuðningsmanna annarra flokka.“

Af orðunum má ráða að ekki sé nóg með að Ólafur Þ. Harðarson telji réttmætt að tengja forkastanlega athæfið sem sagt er frá í fréttum við Sjálfstæðisflokkinn heldur gefur hann til kynna að siðferðismat stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum kunni að vera annað en meðal stuðningsmanna annarra flokka. Á hverju prófessorinn reisir þessa niðurstöðu sína er óljóst. Varla búa fræðilegar rannsóknir að baki henni. Þetta eru einfaldlega hreinar getgátur reistar á órökstuddu mati á stjórnmálatengslum „flestra“ í fimm manna hópi.

1babc953ce0921f7be780dc77109e573_1641897924528Myndin er af vb.is. Á henni er Helgi Magnússon, eigandi Torgs ehf.

Úr Fréttablaðinu fer þessi skoðun prófessorsins síðan inn í aðra miðla Torgs, Hringbraut, dv.is og Eyjuna en á tveimur síðastnefndu vefsíðunum segir í fyrirsögn á frétt Kristjáns Kristjánssonar blaðamanns segir: Telja að mál fimmmenninganna geti skaðað Sjálfstæðisflokkinn – Flestir þeirra hafa tengsl við flokkinn .

Af fyrirsögninni mætti ráða að fleiri en Ólafur Þ. Harðarson væru þeirrar skoðunar sem að ofan er lýst. Svo er þó í ekki. Í Fréttablaðinu er rætt við stjórnmálafæðingana Stefaníu Óskarsdóttur, HÍ, og Eirík Bergmann á Bifröst. Hvorugt þeirra er sömu skoðunar og Ólafur Þ. Harðarson.

Fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, Sigmundur Ernir Rúnarsson er aðalritstjóri útgáfufélagsins Torgs ehf. sem rekur Fréttablaðið, DV, Eyjuna og Hringbraut.

Líta má á þessa frétt Fréttablaðsins og dreifingu hennar í miðlum Torgs ehf. undir ritstjórn Sigmundar Ernis sem dæmi um hvernig miðlarnir eru nýttir til að gera hlut sjálfstæðismanna og Sjálfstæðisflokksins sem verstan. Birtast tilraunir til þess hvað eftir annað í leiðurum Sigmundar Ernis. Einn dálkahöfunda blaðsins, Ólafur Arnarson, gerir jafnan hlut Sjálfstæðisflokksins sem verstan.

Helgi Magnússon endurskoðandi er aðaleigandi Torgs ehf. og hefur frá 2019 varið stórfé til að færa út kvíarnar á sviði fjölmiðlunar og greiða niður tapið á henni. Augljóst er að markmið útgáfunnar verður sífellt flokkspólitískara en Helgi var meðal stofnenda Viðreisnar vorið 2016.

Lestur Fréttablaðsins minnkar jafnt og þétt megi marka mælingar. Á vefsíðunni Kjarnanum sagði 8. janúar 2022 að Lestur Fréttablaðsins hefði mælst 30,5% í nóvember 2021 en hefði haldist yfir 50% þangað til í desember 2015. Meðal 18 til 49 ára mælist lestur Fréttablaðsins nú 21,1%.