5.9.2024 11:00

Stjórnmálaályktun flokksráðs

Nokkrir punktar og áhersluatriði úr stjórnmálaályktun flokksráðs sjálfstæðismanna frá 31. ágúst 2024. 

Hér birtast punktar úr stjórnmálaályktun flokksráðs sjálfstæðismanna frá 31. ágúst 2024:

Í upphafi ályktunarinnar er lýst endurnýjun ríkisstjórnarsamstarfsins undir forsæti Bjarna Benediktssonar og uppfærslu á áherslum stjórnarflokkanna og farið yfir árangur á nokkrum sviðum.

Þá er vikið að því sem fram undan er og sagt að forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar sé að stuðla að lægri verðbólgu og lækkun vaxta sem ekki verði gert nema með auknu aðhaldi í opinberum fjármálum, hóflegum kjarasamningum á vinnumarkaði og jafnvægi á húsnæðismarkaði. Bregðast verði hratt og örugglega við framboðsskorti á húsnæðismarkaði með því að stuðla að auknu framboði lóða, m.a. með stækkun á vaxtarmörkum höfuðborgarsvæðisins og einföldun laga og reglna um byggingar.

458338079_918943033613071_6893427976148235154_nSéð yfir salinn á Hótel Nordica þegar Bjarni Benediktsson flutti setningarræðu fundarins. Fundarmenn voru 370 og hafa ekki áður verið fleiri á slíkum fundi (mynd xd.is).

Þá er lögð áhersla á hagkvæmari nýtingu sameiginlegra fjármuna með aðhaldi, útvistun verkefna, fækkun stofnana og opinberra starfsmanna, sparnaði í stjórnsýslu, sölu opinberra fyrirtækja og fjárfestingu í stafrænni stjórnsýslu og aukinni notkun gervigreindar.

Fagnað er að gerðar verði frekari breytingar á útlendingalögum, endurskoða verði lögin frá grunni og fella úr gildi allar íslenskar sérreglur. Styrkja verði almannaöryggi með frekari breytingum á lögreglulögum og eflingu löggæslu.

Í efnisgrein um loftslagsmál er vísað til þess að hér sé hlutfall endurnýjanlegrar orku af orkunotkun með því hæsta í heimi og því þurfi að endurskoða skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og verja íslenska hagsmuni.

Raforkuöryggi er sagt forsenda atvinnu- og verðmætasköpunar og aðgerðir í skjóli rammaáætlunar megi ekki koma í veg fyrir framkvæmdir við virkjanakosti í nýtingarflokki.

Styrkja verði samkeppnishæfni þjóðarinnar með hagstæðu skattaumhverfi og einföldu regluverki.

Ráðist verði í stórátak til að bæta samgöngur og auka öryggi um land allt með skilvirkni og hagkvæmni að leiðarljósi. Setja skuli lagningu Sundabrautar í forgang.

Skorað er á þingmenn að tryggja samræmdar, skýrar og gagnsæjar reglur um próf, námsmat og aðgang að gögnum sem sýna stöðu einstakra grunnskóla innan heildarinnar. Þjónusta leikskóla er sögð jafnréttismál og ein grunnstoð jafnræðis á vinnumarkaði.

Sjúkratryggingum skal gert skylt að semja við einkareknar heilsugæslustöðvar. Virða á sjálfsákvörðunarrétt eldra fólks og tryggja fjárhagslegt sjálfstæði. Öldrunarþjónusta miðist við þarfir hvers og eins.

Minnt er á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft forystu um mótun þeirrar stefnu í utanríkis- og varnarmálum sem tryggt hafi öryggi og sess Íslands meðal lýðræðisþjóða.

Í lokin segir:

„Sjálfstæðisflokkurinn stendur nú sem áður vörð um þau grunngildi sem lágu að baki stofnun hans; frelsi og framtak einstaklinga, eignarrétt, jöfn tækifæri og velferð fyrir alla samhliða virðingu fyrir lögum og rétti, bæði innan ríkis og í samskiptum ríkja.“