17.12.2024 9:57

Stjórnarmyndunin og Virðing stéttarfélag

Það er ekki nýtt að forkólfar verkalýðshreyfingarinnar fari hörðum orðum um stéttarfélög sem stofnuð eru án atbeina þeirra. Hreyfingin á gífurlegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta. 

Hér ríkir félagafrelsi auk þess sem skylduaðild að verkalýðsfélagi eða öðrum félögum brýtur í bága við mannréttindalög og reglur. Í Vísi í dag (17. desember) sakar Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri SVEIT, Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, stéttarfélagið Eflingu, undir formennsku Sólveigar Önnu Jónsdóttur, um að beita hótunum og að henda fram ósannindum í stað þess að leita lagalegra leiða til að koma í veg fyrir að SVEIT semji við stéttarfélagið Virðingu.

Efling segir Virðingu gervistéttarfélag og samning SVEIT og Virðingar að engu hafandi. Starfsgreinasambandið, VR, BHM, BSRB og Samiðn segja Virðingu ekkert annað en gervistéttarfélag, það er „gult stéttarfélag“. Slík félög eru sögð stofnuð af atvinnurekendum og stýrt af þeim í því skyni að þvinga launþega, starfsmenn fyrirtækjanna, til að ganga í þau. Atvinnurekendur semji í raun við sjálfa sig og ákveði kjör starfsfólks síns einhliða.

Screenshot-2024-12-17-at-09.56.36

Á vefsíðu Virðingar stéttarfélags segir að félagið sé leitt af formanni, Jafet Thor Arnfjörð Sigurðarsyni, ásamt meðstjórnendum. Boðað er að frá 1. janúar 2025 verði Valdimar Leó Friðriksson framkvæmdastjóri félagsins en hann hafi yfirumsjón með daglegum rekstri og þjónustu félagsins. Markmið stjórnar sé að vinna að bættum kjörum félagsmanna og tryggja öflugt bakland fyrir þá á vinnumarkaði.

Það er ekki nýtt að forkólfar verkalýðshreyfingarinnar fari hörðum orðum um stéttarfélög sem stofnuð eru án atbeina þeirra. Hreyfingin á gífurlegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta og óttast afleiðingar þess ef svonefndum „félagabrjótum“ vex fiskur um hrygg.

Þótt talsmenn óbreytts ástands beri það á borð að aðeins þeir geti tryggt fólki í ákveðnum atvinnugreinum viðunandi kjarasamninga sprettur óvildin í garð félagabrjótanna af ótta verkalýðsforingja um eigin stöðu. Félagabrjótar eru sagðir náskyldir verkfallsbrjótum og lögbrjótum. Markmið þeirra sé að brjóta niður réttindi og stöðu stéttarfélaga í samfélaginu.

Það er rétt hjá Aðalgeiri Ásvaldssyni í Vísi að tilvist Virðingar er fullkomlega lögleg. Hvorki Efling né nokkuð annað verkalýðsfélag gerir minnstu tilraun til að fara lagalegar leiðir til að sýna fram á annað.

Þar sem ætlunin er að drepa Virðingu með hótunum, þrýstingi, ályktunum og almennum áróðri er rétt að minna á að þeir sem helst hafa aðhyllst einokunarvald rótgróinna verkalýðsfélaga fengu hraklega útreið í þingkosningunum 30. nóvember. VG, Pírötum og Sósíalistaflokknum var hafnað á eftirminnilegan hátt.

Nú hafa talsmenn óbreytts ástands í verkalýðshreyfingunni helst hljómgrunn í Flokki fólksins, Ragnar Þór Ingólfsson, fráfarandi formaður VR, er nýkjörinn þingmaður flokksins. Auk þess eru sterk öfl innan Samfylkingarinnar sem vilja fara að öllum óskum verkalýðshreyfingarinnar, nú hafi flokkurinn tækifæri til vinstri.

Spurningin er hve Viðreisn er tilbúin að ganga langt til vinstri til að komast í ríkisstjórnina sem rædd hefur verið án sýnilegs árangurs í tvær vikur.