Stjórnarhættir á miðhálendi
Þetta stjórnkerfisbákn vekur strax spurningar um hvert sé stefnt í stjórnarháttum þjóðgarðsins þegar ráðherra á í raun síðasta orðið.
Sé tekið mið af opinberum umræðum um miðhálendisþjóðgarð þarf að brúa stórt bil til að sátt myndist um málið. Ekki er þó deilt um meginmarkmiðið: að umgengni um hálendið einkennist af virðingu fyrir náttúru landsins og vernd hennar. Deilurnar snúast um hver eigi síðasta orðið í skipulagsmálum.
Hér hefur áður verið vakin athygli á að í frumvarpi umhverfisráðherra um friðlýsingu miðhálendisins er gert fyrir stjórnkerfi með aðild að minnsta kosti 65 fulltrúa í nefndum og ráðum, fleirum en sitja á alþingi. Þetta stjórnkerfisbákn vekur strax spurningar um hvert sé stefnt í stjórnarháttum þjóðgarðsins þegar ráðherra á í raun síðasta orðið.
Í grein í Morgunblaðinu í dag (23. janúar) ræðir Snorri Baldursson, líffræðingur og áhugamaður um miðhálendisþjóðgarð, stöðu frumvarps umhverfisráðherra og sakar í upphafi stjórnarliða, væntanlega þingmenn, um að þeim sé „að takast að snúa stemningunni“ í vil úrtölumönnum um þjóðgarðinn „með hræðsluáróðri“. Snorri telur að við myndun ríkisstjórnarinnar hafi verið samþykkt að stofna þjóðgarð á miðhálendinu án tillits til þess hvernig að því yrði staðið. Eitt er að setja sér markmið annað að ná saman um leiðir að því. Þar brást umhverfisráðherra bogalistin þegar hann samdi frumvarp sitt.
Myndin er úr sarpi.is og sýnir fjallaferð á árum áður.
Snorri Baldursson ávítar þá sem krefjast enn „frekari gjaldfellingar“ á friðlýsingarkröfunni í frumvarpinu „í þágu orkuvinnslu, innviðauppbyggingar og svokallaðs ferðafrelsis sem virðist felast í því að aka frjáls um óskilgreindar vegleysur“.
Í annarri grein í Morgunblaðinu í dag lýsir Þorvarður Ingi Þorbjörnsson fjallabílstjóri reynslu sinni af Vatnajökulsþjóðgarði og varar við sambærilegum stjórnarháttum í miðhálendisþjóðgarði:
„För er svo sannarlega heft [í Vatnajökulsþjóðgarði], með lokunum vega og slóða og svæða, með kvótaúthlutunum í andstöðu við heimamenn. Menningarverðmætum sem gamlar götur eru, sem og náttúrulegri upplifun, yrði fórnað fyrir „montgarð“. Ljóst er að vernd í formi lokana og takmarkana mun ávallt ganga fyrir. Almannaréttur og ferðafrelsi fótum troðið.“
Snorri Baldursson víkur að stjórnkerfi miðhálendisþjóðgarðs og segir:
„Ekki skal ég þvertaka fyrir að sveitarstjórnir hafi gert ýmislegt vel en pólitískt kjörinn meirihluti er ekki varanleg stjórnsýslueining heldur háður ríkjandi straumum og hugdettum fámennra hópa. Stefnumálin eru síbreytileg og rekst þar oft hvað á annars horn. Tveir tugir sveitarstjórna eru þess vegna illa til þess fallnir að sýsla með og vernda miðhálendið.“
Snorri telur sem sagt að taka beri lögmætt skipulagsvald úr höndum lýðræðislegra kjörinna fulltrúa enda sé „tvístruð stjórnsýsla“ á miðhálendinu „raunveruleg ógn“ við vernd þess til framtíðar.
Þarna er lýst hugmyndafræðinni að baki stjórnkerfisins í frumvarpi ráðherrans. Það er ekki af ástæðulausu að sett sé spurningarmerki við leið ráðherrans að markmiðinu. Það þarf engan „hræðsluáróður“ til þess. Önnur og lýðræðislegri aðferð er að lögfesta efnisákvæði sem binda hendur þeirra sem fara með skipulagsvaldið og knýja þá til dæmis til að virða grunnreglur friðlýsingar og sjálfbærrar landnýtingar.