22.2.2024 10:35

Stjórnarandstaða í uppnámi

Pappírstígrisdýr birtast alltaf öðru hverju á stjórnmálavettvangi en þau eru jafnan ekki annað en einmitt pappírstígrisdýr og það á við þegar sagt er að formaður Nýju Samfylkingarinnar sé ógnvaldur. 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, baðst undan því á alþingi miðvikudaginn 21. febrúar að útlendingamálin yrðu kosningamál. Hún vill ekki umræður um þau á almennum pólitískum vettvangi heldur eigi að beina athygli að brýnum viðfangsefnum.

Á þennan veg talar formaður flokks sem klauf Sjálfstæðisflokkinn til að tryggja að aðild Íslands að Evrópusambandinu yrði ávallt á dagskrá stjórnmálamanna og kjósendur gætu tekið afstöðu til flokka í kosningum með því að kjósa flokk sem hefði aðild á stefnuskrá sinni.

Viðreisn forðast nú að ræða þetta höfuðmál sitt af því að kjósendur hafa engan áhuga á því. Kjósendur hafa hins vegar áhuga á útlendingamálunum og þá vill formaður Viðreisnar að þau séu tekin af dagskrá. Hvers vegna? Jú, vegna þess að flokkurinn hefur í þessu máli lagst á sveif með þeim sem mótmælt hafa öllum hugmyndum um herta útlendingalöggjöf. Flokksformaðurinn vill til dæmis ekki að vakin verði athygli á ræðunum sem Sigmar Guðmundsson, samþingmaður hennar úr SV-kjördæmi hefur flutt um þessi mál til stuðnings öfgasjónarmiðum Pírata.

Píratinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fór í ræðustól alþingis 21. febrúar og kvartaði undan því að það hefði „orðið alger umsnúningur á viðhorfi fólks til fólks á flótta“. Vildi hún kenna Katrínu Jakobsdóttur og VG-flokki hennar um að standa ekki gegn breytingum á útlendingalöggjöfinni í fyrra. Þær hefðu orðið til þess að meirihluti fólks snerist frá því að vera jákvæður gagnvart fólki á flótta yfir í að verða neikvæður. Nú sé „það allt í einu bara orðinn eðlilegur hlutur að búa til móttökubúðir fyrir flóttafólk, móttökubúðir með fangavörðum, móttökubúðir með valdbeitingarheimildum til að geyma fólk á flótta“.

Papertiger2

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur lýst sig fylgjandi „lokuðu búsetuúrræði“ fyrir fólk á flótta og það hefur Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, einnig gert. Þorgerður Katrín vill sem minnstar umræður um málið og Kristrún ætlaði einmitt að breyta þegjandi og hljóðalaust um stefnu. Hún hafði ekki vald innan Samfylkingarinnar til þess og þar leikur allt á reiðiskjálfi.

Eini öruggi stuðningsmaður Kristrúnar í sex manna þingflokki Samfylkingarinnar, Jóhann Páll Jóhannsson, sagði í upphafi ræðu til varnar Kristrúnu á þingi 21. febrúar: „Það hefur gripið um sig ákveðin taugaveiklun í Sjálfstæðisflokknum eftir að hv. þm. Kristrún Frostadóttir steig inn í umræðu um útlendingamál“. Þetta er einhver máttlausasta málsvörn fyrir ákvörðun flokksformanns sem um getur. Þessi lína var gefin af Össuri Skarphéðinssyni, ráðgjafa Kristrúnar. Hún er reist á því stefi að allt sem sagt sé um nýjan málflutning Kristrúnar megi rekja til ofsahræðslu við hana!

Pappírstígrisdýr birtast alltaf öðru hverju á stjórnmálavettvangi en þau eru jafnan ekki annað en einmitt pappírstígrisdýr og það á við þegar sagt er að formaður Nýju Samfylkingarinnar sé ógnvaldur. Kristrún hefur ekki einu sinni vald á eigin flokki þegar á reynir og þetta vita þeir best sem reyna að kenna sjálfstæðismönnum um útlendingavandann innan Samfylkingarinnar. Úr þessum innanflokksvanda verður Jóhann Páll að leysa á heimavelli.