12.9.2018 10:04

Stefnuræðan og WOW air

Forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag má skilja á þann veg að stjórnendur félagsins voni að íslensku bankarnir lýsi yfir trú og trausti á félaginu.

Forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir flytur stefnuræðu sína í kvöld (12. september). Tæpt ár er liðið frá sögulegri stjórnarmyndun þar sem sjálfstæðismenn og vinstrigrænir tóku höndum saman í fyrsta sinn og mynduðu stjórn með framsóknarmönnum. Ráðherrar hafa ekki slegið eins mikið um sig á opinberum vettvangi eins og oft hefur verið og stjórnarandstaðan er brotakennd í kringum einstök upphlaupsmál.

Sérfræðingar keppast við að fullvissa þjóðina um að hún og fyrirtækin í landinu standi mun betur að vígi en fyrir 10 árum, á lokadögunum fyrir hrun.

Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands, sagði á rás 2 í morgun:

„Við höfum öll lært ágætlega af því sem gerðist fyrir 10 árum síðan af því við stöndum, við sem heimili, fyrirtæki og ríkið, það standa allir miklu betur fjárhagslega heldur en við gerðum þá...

[Þ]að sem fær mann til að vera nokkuð sannfærðan um það að við séum ekki að fara að sjá það sama og fyrir 10 árum síðan er það að skuldastaða íslenska þjóðarbúsins í heild gagnvart útlöndum er svo miklu miklu miklu betri. Við erum ekki svona skuldug. Við eigum meira í útlöndum en við skuldum. Það eitt og sér hjálpar alveg gríðarlega við það að halda krónunni stöðugri og raun og veru bara styðja við allan fjármálastöðugleika.“

Konráð lagði áherslu á að inngrip seðlabankans 11. september til að styrkja gengi krónunnar hefði falið í sér skilaboð um að ganga bæri hægt um gleðinnar dyr, til dæmis ekki lofa of miklu fyrir hönd ríkissjóðs. Aðrir rekja lækkun gengisins til vandræða stjórnenda WOW air við fjármagna félagið að nýju, tilraunir til að afla 12 milljarða kr. með skuldabréfaútboði hefðu ekki heppnast.

Screenshot_2018-09-12-180912-pdf-180912-pdf

Forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag má skilja á þann veg að stjórnendur félagsins voni að íslensku bankarnir lýsi yfir trú og trausti á félaginu með fyrirgreiðslu og þá kunni aðrir að sigla í kjölfarið. Segir blaðið að þeir sem þekki vel til stöðu mála telji „að stjórnendur og ráðgjafar WOW air hafi orðið bjartsýnni um framgang útboðsins eftir því sem leið á gærdaginn en unnið er að því að ljúka útboðinu – með markaðsfjármögnun – fyrir helgi“.

Ekki er líkegt að þetta mál beri hátt í stefnuumræðunum í kvöld því að sú skoðun er almenn meðal stjórnmála-, fjármála- og fjölmiðlamanna að það sé af hinu illa að stjórnmálamenn ræði vanda vegna einstakra fyrirtækja opinberlega og jafnvel á lokuðum trúnaðarfundum af því að af þeim berist fréttir.

Eftir bankahrunið fann meirihluti landsréttar að því að þáverandi forsætisráðherra hefði ekki látið skrá í fundargerðir ríkisstjórnarinnar að rætt hefði verið um vanda bankanna og yfirvofandi hrun á ríkisstjórnarfundum – var forsætisráðherra talinn brjóta gegn stjórnarskránni. Það er vandratað meðalhófið.