Stefnulausi píratinn
Spurningin er hvort þingmaðurinn ætlar sjálfur að sýna á einhver spil í haust eða hvort þetta sé aðeins krafa um að aðrir sýni honum á spilin sín.
Forvitnilegt er að greina hvað forystumenn Pírata hafa til málanna að leggja í ljósi stöðu þeirra í könnunum. Spyrja má hvort með stuðningi við þá sé fólk að taka jákvæða afstöðu til boðaðrar stefnu eða að láta í ljós neikvæðni. Fulltrúi Pírata í hópi leiðarahöfunda Fréttablaðsins réðst á dögunum með hatursfullu orðalagi á útlendingastofnun og starfsmenn hennar. Þar sat neikvæðnin í fyrirrúmi án þess að nokkuð kæmi í staðinn.
Þingmaður Pírata Björn Leví Gunnarsson skrifar pistil í Morgunblaðið í dag (3. ágúst) í tilefni af því að nú styttist í að þing verði aftur kallað saman. Hann segir að fyrir utan „Íslandsbankakýrslu“ ríkisendurskoðunar verði efnahagsmálin, kjaramálin, útlendingamálin og loftslagsmálin „stóru mál haustþingsins“. Athyglisvert er að þingmaðurinn minnist ekki á fjárlög ársins 2023 en haustþing einkennast jafnan mjög af afgreiðslu fjárlaganna. Þá er honum ekki ofarlega í huga að þingmenn ræði öryggis- og varnarmál þjóðarinnar á stríðstímum í austurhluta Evrópu.
Björn Leví sér ekki ástæðu til að bíða „Íslandsbankaskýrslunnar“ heldur slær því föstu að fjármálaráðherra sé „í mjög slæmum málum út af því hvernig hann klúðraði sölunni á Íslandsbanka“. Salan ætti „að hafa að minnsta kosti pólitískar afleiðingar,“ segir hann án þess að benda á hverjar þær eigi að verða.
Þá segir hann: „Efnahagsmálin eru í verulega slæmum málum.“ Lesi menn langt viðtal við Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra í ViðskiptaMogga í dag sjá þeir að þessi klúðurslega fullyrðing píratans stenst ekki. Miðað við aðra stendur íslenska þjóðarbúið almennt vel að vígi. Píratinn segir ekki eitt orð um hvernig hann vill snúa efnahagsmálunum til betri vegar.
Þegar Björn Leví ræðir kjarasamningana skilar hann einnig auðu og treystir á að aðrir komi með lausnir sem hann áskilur sér rétt til að gagnrýna án þess að láta á nokkra eigin skoðun reyna.
Hann segir útlendingamálin áfram verða „viðamikil“, hvað sem í því orði felst „á meðan stjórnvöld hafa enga stefnu í þeim málaflokki“. Þarna er undarlega til orða tekið. Þær eru ófáar ræðurnar sem Píratar hafa flutt til að gagnrýna útlendingastefnu ríkisstjórnarinnar. Í stað þess að boða einhverja stefnu sjálfur segir Björn Leví: „Stjórnvöld verða að fara að þora að segja það upphátt hvernig þau ætla að haga þessum málum því eins og er lítur út fyrir að þau vilji bara suma útlendinga.“
Þingmaðurinn bendir á að í gildi sé áætlun í loftslagsmálum um „29% samdrátt fyrir árið 2030“ og segir síðan: „Enn hefur ekki heyrst orð um hvernig á að ná þeim árangri.“ Lesandinn hefur ekki minnstu hugmynd um hver sé stefna píratans í loftslagsmálum eða hvernig hann ætlar að framkvæma hana.
Pistlinum lýkur Björn Leví Gunnarsson á þessum orðum:
„Það er því kominn tími til þess að sýna á spilin og það á að gerast í haust.“
Spurningin er hvort þingmaðurinn ætlar sjálfur að sýna á einhver spil í haust eða hvort þetta sé aðeins krafa um að aðrir sýni honum á spilin sín, hann fái ný tilefni til stefnulausrar gagnrýni og niðurrifs.
Af þessari grein píratans stafar ekkert annað en neikvæðni, hvergi er eitthvað orðað til að ná settu markmiði.