19.1.2020 12:55

Stefnir í átök Ragnars Þórs og Gunnars Smára

Spurning er hvort Ragnar Þór telur viðbrögð Gunnars Smára nógu sterk til að sannfærast endanlega um að hann sé á réttri leið.

Sé farið inn á vefsíðu Sósíalistaflokks Íslands, flokks Gunnars Smára Egilssonar, mætti ætla af lista yfir fundi flokksstjórnar að hún hefði ekki komið saman síðan í maí 2019. Laugardaginn 18. janúar 2020 birti Gunnar Smári hins vegar á FB-síðu sinni að félagsfundur Sósíalistaflokks Íslands hefði samþykkt að fela kjörstjórn flokksins að skipa kosningastjórn hið fyrsta til að undirbúa framboð flokksins til næstu alþingiskosninga. Engin mynd birtist á FB-síðunni frá félagsfundinum en þar birtist hins vegar fréttatilkynning frá flokknum:

„Framboð Sósíalistaflokksins er nauðsynlegt til að koma hagsmuna- og réttlætisbaráttu verkalýðsins og annarra fátækra og kúgaðra hópa á dagskrá landsmálanna. Framboð Sósíalistaflokksins skal verða borið fram af hinum kúguðu, stefna flokksins skal vera kröfugerð hinna kúguðu og kosningabarátta flokksins skal miða að því að virkja hin kúguðu til þátttöku, upprisu og aðgerða.

Stjórnmálin hafa brugðist almenningi og alþýðunni. Alþýðan sjálf þarf að rísa upp og taka völdin af hinum fáu. Við erum fjöldinn og okkar er valdið. Við munum byggja upp samfélag út frá okkar hagsmunum, okkar væntingum og okkar siðferði. Við sættum okkur ekki við að búa innan samfélags sem byggt var upp til að vernda völd og auð fárra.“

Sosialistar-hvitt-1600x1067Þetta er athyglisverð tilkynning í ljósi frétta fyrr í mánuðinum um að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefði í hyggju að stofna verkalýðsflokk og bjóða fram í næstu þingkosningum. Samstarf hefur verið milli Ragnars Þórs og Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar stéttarfélags, sem stóð að stofnun Sósíalistaflokksins með Gunnari Smára. Viðar Þorsteinsson sem samdi lög Sósíalistaflokksins er nú hægri hönd Sólveigar Önnu sem framkvæmdastjóri Eflingar en þau beittu sér fyrir hreinsunum á skrifstofu Eflingar í anda sósíalískrar kúgunarstefnu.

Fyrir rúmri viku, föstudaginn 10. janúar, greindi Ragnar Þór Ingólfsson frá því að viðhorfskönnun MMR á vegum VR leiddi í ljós að „23% svarenda höfðu hug á að kjósa“ flokk verkalýðshreyfingarinnar yrði hann stofnaður. „Það þýðir að um væri að ræða stærsta stjórnmálaflokkinn miðað við síðustu kannanir og mögulega ráðandi afl eftir næstu kosningar,“ sagði Ragnar Þór sigurglaður og bætti við: „Stjórn VR samþykkti á síðasta stjórnarfundi að fela formanni félagsins að kynna ítarlegar niðurstöður fyrir miðstjórn ASÍ.“

Þá sagði formaður VR:

„Sterk viðbrögð sérhagsmunaafla er mælikvarði á það hvort við erum á réttri leið eða ekki. Mín tilfinning var sú að með þessari hugmynd vorum við á hárréttri leið.“

Eini sérhagsmunaaðilinn sem lætur sig þennan boðskap Ragnars Þórs varða er formaður Sósíalistaflokks Íslands. Spurning er hvort Ragnar Þór telur viðbrögð Gunnars Smára nógu sterk til að sannfærast endanlega um að hann sé á réttri leið. Svo kemur í ljós hvort gert verði út um ágreining þeirra um framboð í lokuðu bakherbergi eða átökum með aðild almennra kjósenda.