11.2.2022 9:35

Starfsmannavandi Isavia

Uppsagnir Isavia á reyndu starfsfólki fá á sig sérkennilegan blæ þegar lesin er frétt á ruv.is um skort fyrirtækisins á starfsfólki.

Kærunefnd jafnréttismála birti í byrjun mánaðarins úrskurð um að óheimilt væri að segja fólki upp sökum aldurs. Var úrskurðurinn felldur í máli manns sem sagt var upp hjá Isavia þar sem hann hefði náð 67 ára aldri.

Hefur sambærilegur úr skurður ekki fallið áður og eftir birtingu hans var talið að hann kynni að hafa veruleg áhrif á íslenskum vinnumarkaði þegar fram liðu stundir.

Kærunefndin mat málið svo að Isavia hefði einvörðungu horft til aldurs starfsmannsins þegar ákvörðun var tekin um starfslok hans. Það væri óheimilt samkvæmt lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði. Hefði Isavia ekki fært nein málefnalega gild rök fyrir ákvörðun sinni.

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) fór með mál starfsmanns Isavia, Þorgríms Baldurssonar. ASÍ sagði úrskurðinn vera fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Í vissum skilningi væri um að ræða grundvallarniðurstöðu í vinnuréttar- og jafnréttismálum sem sýndi að óheimilt væri að segja upp fólki sökum aldurs.

„Viðbúið er að áhrif úrskurðarins muni verða verulega áþreifanleg á íslenskum vinnumarkaði um ókomna tíð,“ sagði í tilkynningu ASÍ eftir að úrskurðurinn féll.

_dsc0566Úr flugstöð Leifs Eiríkssonar (mynd: Isavia).

Uppsagnir Isavia á reyndu starfsfólki fá á sig sérkennilegan blæ þegar lesin er frétt á ruv.is frá 10. febrúar um að Isavia og stóru fyrirtækin á Keflavíkurflugvelli eigi í vandræðum með að manna sumarstörf og séu umsóknir margfalt færri en fyrir COVID-19-faraldurinn að sögn mannauðsstjóra Isavia. Í fréttinni er tekið fram að atvinnuleysi á landinu mælist nú 5,2% en sé hvergi hærra en á Suðurnesjum, þar er það 9,5%.

Rætt er við Brynjar Már Brynjólfsson, mannauðsstjóra Isavia, sem segir að fyrirtækið ætli að ráða í um 300 stöðugildi í sumar – „allskonar fjölbreytt og skemmtileg störf“ – en hafi nú „bara“ fengið rétt rúmlega tvö hundruð umsóknir. Frestur til að sækja um sumarstörfin átti að renna út nú um helgina. Hann hefur verið framlengdur um nokkrar vikur. Vegna sumarvinnu árið 2019 fékk Isavia 800-1500 umsóknir um þessi störf.

Brynjar Már segir að þessi tregða til að sækja um störf á Keflavíkurflugvelli kunni að stafa af ótta við að ný faraldursbylgja berist og þá verði ráðningar afturkallaðar. Áhugaleysi um störf á alþjóðaflugvöllum sé ekki bundið við Keflavík.

Mannauðsstjórinn er með gulrót í lokin þegar hann segir sumarstörf hjá Isavia oft leiða til fastráðningar. Vandinn vegna skorts á starfsfólki sé þó ekki aðeins bundinn við sumarið: „Við höfum líka verið í smá vandræðum með að fá fólk bara í almenn sérfræðistörf hjá okkur,“ segir mannauðsstjóri Isavia.

Frétt ruv.is um starfmannaskort Isavia er skrifuð með vísan til talna um atvinnuleysi. Minna má á að þær hafa lækkað úr 12,8% í janúar 2021 í 5,2% 2022.

Það má einnig setja vandann í samhengi við þá mannauðsstefnu Isavia sem birtist í úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Reyndum starfsmanni sagt upp að tilefnislausu vegna 67 ára aldurs. Það er ekki ímynd góðs vinnuveitanda.