15.5.2025 10:22

Standard Ingu og Daða Más

Inga ætti að fara í smiðju til Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Í þessu sama tölublaði Morgunblaðsins er lýst hvernig þau stilltu saman strengi sína svo að Inga og flokkur hennar héldi örugglega styrkjum úr ríkissjóði.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, er afar ósátt við Ingu Sæland, formann Flokks fólksins og félagsmálaráðherra, fyrir að hafa neitað Fjölskylduhjálpinni um styrk, starfsemi hennar sé stefnt í voða.

Í Morgunblaðinu í dag (15. maí) segir Inga Sæland að enginn styrkur hafi verið veittur til fjölskylduhjálparinnar af því að hún hafi ekki sótt um styrk haustið 2024 þegar fylla þurfti út rafræna umsókn og senda rétta boðleið. Inga segist jafnframt leita leiða „í ráðuneytinu, burtséð frá þessari formlegu umsókn sem ekki barst, til þess að styðja frekar þau góðu verk sem Fjölskylduhjálp Íslands vinnur í þágu þeirra sem mest þurfa á hjálp að halda“.

1567428Inga Sæland (mynd; Mbl/Árni Sæberg).

Inga ætti að fara í smiðju til Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Í þessu sama tölublaði Morgunblaðsins er lýst hvernig þau stilltu saman strengi sína svo að Inga og flokkur hennar héldi örugglega styrkjum úr ríkissjóði þótt flokkurinn fullnægði ekki settum skilyrðum.

Fjármálaráðherra leit fram hjá öllum formkröfum og vísaði í langt lögfræðiálit. Þar vart látið sem Inga hefði verið í góðri trú um að hún stæðist allar kröfur.

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að í nóvember 2023 sendi ríkisendurskoðandi ábendingu til Flokks fólksins um að flokkurinn væri ekki skráður á stjórnmálasamtakaskrá Skattsins í nóvember 2023. Þetta lá fyrir í tölvubréfi ríkisendurskoðanda til ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins í janúar 2025.

Þegar röng skráning Flokks fólksins komst í hámæli fyrr á árinu sagðist Inga í fyrstu vita af „formgallanum“. „Í síðari viðtölum dró hún úr og sagðist ekki hafa vitað af „formgallanum“ fyrr en haustið 2024. Þá hefði þegar verið brugðist við og boðað til landsfundar sem frestaðist svo vegna þingkosninga,“ segir í Morgunblaðinu í dag. Þar segir einnig:

„Ein helsta röksemd Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra fyrir því að Flokki fólksins bæri ekki að endurgreiða þær 240 milljónir króna sem flokkurinn þáði í trássi við lög er að Flokkurinn hafi verið í góðri trú.“

Í blaðinu kemur nú fram að bréf ríkisendurskoðanda var sent ráðuneytinu 23. janúar 2025, það er áður en óskað var eftir lögfræðiálitum um hvort krefjast ætti endurgreiðslu.

Með samvinnu Daða Más og Ingu Sæland tókst að hanna slíka umgjörð utan um styrkveitingar til Flokks fólksins að Inga hélt þeim 240 m.kr. sem hún hafði fengið út á „góða trú“ sína og síðan 91 m.kr. í ár, samtals 331 m.kr.

Í Morgunblaðinu 14. maí lýsti Ásgerður Jóna samskiptum sínum við Ingu á þennan hátt:

„Ég talaði við hana í þrígang. Í fyrsta símtalinu var allt mjög jákvætt. Svo hitti ég hana á landsfundi Flokks fólksins og spurði hana um málið. Þá sagðist hún hafa lagt þetta fyrir ríkisstjórn og þar hefði því verið synjað því engir peningar væru til. Í þriðja samtalinu sagðist hún ekkert geta gert.“

Nú segir Inga að Ásgerður Jóna hafi aldrei sótt um styrk. Formlega geti hún ekki styrkt hana, samt reyni hún að gera það. Hér er meðferð á skattfé almennings til umræðu. Fjármálaráðherra setti standardinn með fyrirgreiðslunni til Ingu.