7.3.2020 12:26

Stafræn sigurganga NYT

The New York Times tókst að halda stöðu sinni og ná nýju forskoti með því að slaka aldrei á gæðakröfunum.

Ben Smith stofnaði vefsíðuna BuzzFeed News í Bandaríkjunum á sínum tíma en er nú orðinn dálkahöfundur á The New York Times (NYT)um fjölmiðlamál. Í fyrsta dálki sínum sem birtist 2. mars 2020 segir hann að árið 2014 þegar hann hitti A.G.Sulzberger, núverandi útgefanda NYT í fyrsta sinn hafi hann reynt að ráða hann til BuzzFeed.

Á þessum tíma hafði stafræn fjölmiðlun náð sér verulega á strik. NYT stóð verulega illa að vígi fjárhagslega og fyrirtækið hafði selt allt sem það átti nema húsgögnin til að eiga fyrir launum blaðamannanna.

Merlin_169745142_43ee1f31-57da-4f55-a204-a2250bc47f10-superJumboRitstjórnarskrifstofur The New York Times

Smith segir að Sulzberger, sem allir töldu víst að mundi taka við stjórn NYT, hafi kurteislega hafnað tilboði sínu og nú sé svo komið fyrir sér eftir átta ár sem aðalritstjóri BuzzFeed að hann skrifi um fjölmiðla sem starfsmaður Sulzbergers.

Smith segir að NYT hafi nú fleiri netáskrifendur en The Wall Street Journal, The Washington Post og 250 staðarblöð Gannett-fyrirtækisins samanlagt. Á NYT starfa 1.700 blaðamenn og í þeirra hópi séu margir sem áður ógnuðu veldi blaðsins. Sjálfur segist Smith hafa varið allri starfsævi sinni í samkeppni við NYT og þess vegna sæki að honum dálítil uppgjafartilfinning þegar hann hefji störf á blaðinu.

Sulzberger varð útgefandi NYT 2018. Hann segir að áhrifamönnum í útgáfuheiminum og hluthöfum fyrirtækisins hafi þótt fráleitt að selja allar eignir þess til að tryggja áfram sem besta blaðamennsku.

Smith segir að síðan hafi enn sigið almennt á ógæfuhliðina í bandarískri blaðaútgáfu auk þess sem Trump forseti hafi haldið uppi stöðugri ádeilu á NYT. Þrátt fyrir þetta hafi verðmæti hlutabréfa í fyrirtækinu nær þrefaldast frá 2014 og 400 nýir starfsmenn hafi verið ráðnir á ritstjórnina. Byrjunarlaun flestra blaðamanna séu 104.600 dollarar á ári (13,2 m.kr.).

Blaðið færir sig nú hljóðlega í yfirburðastöðu á nátengdu sviði: hljóði (e. audio). Rætt hafi verið við eigendur Serial Productions um kaup á fyrirtækinu sem er í forystu hlaðvarps-fyrirtækja (e. podcast studio) með rúmlega 300 milljón niðurhöl.

Ég hef verið netáskrifandi NYT síðan 2010 og því fylgst með byltingunni á útgáfu blaðsins sem Ben Smith lýsir. Net-útbreiðslu sinni hefur blaðið ekki náð með smellum á eitthvað sem engu skiptir.

Í gær var sagt frá því að Ragnar Axelsson (RAX) væri hættur á Morgunblaðinu eftir 44 ára starf. Hann segir í samtali við Sunnudagsblað blaðsins (7. mars):

„Mikið þarf að gerast til að hún [fréttaljósmyndin] nái sama flugi og við vorum á þegar best lét. Ég get ekki séð að það sé neinn skilningur á þessu lengur; í stað þess að vera aðalatriðið, þegar það á við, er ljósmyndin alltof oft orðin uppfylling í blöðum. Það er þyngra en tárum taki að horfa á starfið sem ég elskaði út af lífinu hreinlega hverfa. Það er ekki lengur til. Bókin og sýningar eru að taka við. [...]

En höfum eigi að síður í huga að enginn vinnur leik með því að sparka boltanum alltaf út af. Blöð verða að halda ákveðnum grunngæðum; fyrir hvern áskrifanda sem hverfur á braut er mörgum sinnum erfiðara að fá nýjan í staðinn.“

The New York Times tókst að halda stöðu sinni og ná nýju forskoti með því að slaka aldrei á gæðakröfunum.