24.12.2025 11:42

Staða kirkjunnar á jólum 2025

Í báðum löndum hefur hlutfall barnaskírna lækkað hratt, sem hefur bein áhrif á fjölda skráðra í kirkjudeildirnar. Í Danmörku er staðan flóknari en hér og að sumu leyti þversagnakennd.

Í ævisögu séra Braga Friðrikssonar eftir Hrannar Braga Eyjólfsson sem kom út í haust segir hvað eftir annað frá því hve kynni séra Braga af safnaðarstarfi meðal Vestur-Íslendinga í Manitoba hafði mikil og mótandi áhrif á allt prestsstarf hans hér eftir heimkomu þaðan fyrir 70 árum.

Áhrifin voru eins og freskur vindur í segl kirkjustarfs hvar sem séra Bragi lét að sér kveða og mótuðu grunnstoðir samfélagsins í Garðabæ sem hann átti ríkan þátt í að reisa með glæsilegum árangri þegar litið er til þess hvernig Garðabær hefur dafnað í áranna rás.

Frásagnirnar af safnaðar- og æskulýðsstarfi séra Braga eru gott leiðarljós á líðandi stundu um hvernig virkja má krafta með kirkjulegu starfi. Margt hefur þó breyst á árunum síðan þegar hugað er að leiðum til að ná til fólks í nafni kirkjunnar. Í morgunútvarpi Rásar 1 í dag (24. desember) mátti heyra viðtal við séra Pálma Matthíasson í Flórída þar sem hann lýsti margbrotnu starfi kristinna safnaða þar og starfaði hann innan eins þeirra þar sem um 20.000 manns sóttu fimm messur um hverja helgi.

IMG_3106

Nú er stafrænni tækni, símum og spjaldtölvum, beitt til að tengja kristilegt orð sem flutt er í messum samtímis við myndir eða ritningartexta sem birtast á þessum tækjum í höndum kirkjugesta.

Séra Pálmi sagði að hlutur kristinna safnaða væri svo snar þáttur í daglegu lífi fólks þarna að ekki væri spurt hvaða íþróttafélag eða stjórnmálaflokk fólk styddi til að átta sig á viðhorfi þess eða áhugamálum heldur í hvaða söfnuði það væri.

Staða þjóðkirkjunnar og fækkun þeirra sem skráðir eru í hana er sígilt umræðuefni hér og einnig í Danmörku þar sem eru rætur okkar skipulags í kirkjumálum. Íslenska þjóðkirkjan hefur þó losað um tengsl sín við ríkisvaldið í ríkari mæli en danska Folkekirken.

Í báðum löndum hefur hlutfall barnaskírna lækkað hratt, sem hefur bein áhrif á fjölda skráðra í kirkjudeildirnar. Í Danmörku er staðan flóknari en hér og að sumu leyti þversagnakennd.

Þrátt fyrir að verulega hafi dregið úr barnaskírnum í Danmörku og fækkað í Folkekirken sýna nýlegar kannanir frá 2025, teknar saman af Danske Kirkers Råd, að ungt fólk sækir í auknum mæli kirkju um jólin, telur sig trúaðra en eldri kynslóðir og virðist í vaxandi mæli nálgast kristna trú á eigin forsendum. Um þriðjungur ungs fólks á aldrinum 18–34 ára í Danmörku segist nú sækja kirkju um jólin, sem er tvöföldun frá árinu 2010, og jafnframt hefur fjöldi þeirra sem láta skíra sig fyrir fermingu nær tvöfaldast á tíu árum.

Á Íslandi virðist lækkun barnaskírna að mestu endurspegla varanlega fjarlægð frá kirkjunni sem stofnun, þar sem hvorki skírn síðar á ævinni né aukin kirkjusókn vegur upp nýliðunarbrestinn. Í Danmörku benda gögn hins vegar til þess að hluti unga fólksins hafni ekki kristinni trú sem slíkri, heldur fresti ákvörðun um skírn og kirkjuaðild, oft á þeim grunni að börn eigi sjálf að velja síðar hvort þau vilji skírn, til dæmis í tengslum við fermingu eða á fullorðinsárum.

Þetta er verðugt íhugunarefni á heilögum jólum. Gleðileg jól!