27.8.2024 10:31

Spyrjið bara Dag!

Svörin við öllum þessum spurningum liggja hjá einum manni, Degi B. Eggertssyni. Hann ákvað þetta ferli frá a til ö, engum öðrum hefði dottið í hug að standa svona að málum. 

Líklegt er að fáum hafi dottið í hug við borgarstjóraskiptin í janúar 2024 að þau drægju þann dilk á eftir sér sem við blasir þegar litið er til umræðnanna um 25 milljón króna aukafjárveitingu vegna skiptanna sem uppgötvaðist fyrir árvekni minnihlutans í borgarstjórn eftir að sex mánaða biðlaunatími Dags B. Eggertssonar, fráfarandi borgarstjóra, var liðinn.

Þegar Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, ræddi aukafjárveitinguna á opinberum vettvangi og hvort hugsanlegt væri að Dagur B. fengi greidd tvenn laun, það er biðlaun og laun sem formaður borgarráðs, og Morgunblaðið birti frétt um greiðslurnar brást Dagur B. illa við og sakaði Hildi og blaðið um dónaskap í sinn garð.

Hildur óskaði skýringa innan borgarkerfisins og Þorsteinn Gunnarsson borgarritari sagði að auk biðlauna Dags B. væri í tölunum að finna 9,7 m.kr. orlofsgreiðslu vegna uppsafnaðs orlofs Dags B. í 10 ár og biðlaunagreiðslu til kosningastjóra Samfylkingarinnar árið 2022. Dagur B. gerði kosningastjórann að aðstoðarmanni sínum nógu snemma fyrir borgarstjóraskiptin til að réttur til biðlauna og orlofs skapaðist.

Eftir að þessar upplýsingar birtust hófst nýr kafli í afsökunar- og skýringarherferð Dags B. og stuðningsmanna hans. Einar Þorsteinsson borgarstjóri skilaði að vísu auðu að hætti framsókarmanna og sagði bara best að ræða málið við Dag B. Dóra Björt Guðjónsdóttir oddviti Pírata vildi sparka málinu frá sér enda væri þetta „karllægt“ mál. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar spilaði eins og áður með Degi B.

Screenshot-2024-08-27-at-10.24.55

Morgunblaðið hefur fylgt málinu eftir og segir í Staksteinum í dag (27. ágúst):

„Dagur vísar í álit „sérfræðinga í vinnurétti“ um að það „sé ekki óalgengt“ [að menn eins og hann starfi án ráðningarsamnings þótt lög segi annað] en af hverju nefndi hann ekki að þar ræddi um Láru V. Júlíusdóttur trúnaðarmann Samfylkingarinnar? Og af hverju fór Dagur á biðlaun fyrir aðrar tíu milljónir þegar fyrir lá að hann var að taka að sér annað launað starf innan ráðhússins?“

Lokaspurningin vísar til þess hve hér er í grunninn skrýtið mál á ferð. Tveir kjörnir fulltrúar hafa skipti á störfum borgarstjóra og borgarritara, þeir starfa áfram í háum embættum hjá sama vinnuveitanda, Reykvíkingum. Hvers vegna var efnt til þriggja stórveislna til að kveðja annan þeirra? Hvers vegna var gert upp orlof annars þeirra? Skapaðist sjálfstæður réttur aðstoðarmanns annars þeirra til bið- og orlofslauna vegna þessara vistaskipta?

Svörin við öllum þessum spurningum liggja hjá einum manni, Degi B. Eggertssyni. Hann ákvað þetta ferli frá a til ö, engum öðrum hefði dottið í hug að standa svona að málum. Svar Einars Þorsteinssonar: Þið skuluð bara spyrja Dag – segir allt sem segja þarf.

Embættisfærsla Dags B. Eggertssonar hefur árum saman einkennst af því að kasta málum yfir á aðra þegar gefur á bátinn. Skýringar Láru V. Júlíusdóttur, sérfræðings í vinnurétti, sem slær úr og í þegar hún tekur málstað Dags B. duga alls ekki til að afsaka neitt í þessu einstaka máli þar sem fráfarandi borgarstjóri sviðsetti afsögn sína á kostnað borgarbúa og skaraði eld að eigin köku.