4.7.2022 9:35

Spuninn gegn VG

Öll þessi „frétt“ með prófessornum fyrrverandi er ekkert annað en spuni til að halda lífi í hannaðri atburðarás sem er reist á þrá eftir að sprengja ríkisstjórnina.

Hér var í gær bent á „slaufunaraðferðina“ sem beitt er á markvissan hátt gegn VG eftir að flokkurinn sagði skilið við vinstri meirihlutann í Reykjavík og Framsóknarflokkurinn hljóp undir bagga með Degi B. Eggertssyni og félögum.

Spinning-top

Eftir að pistillinn birtist á Facebook urðu töluverðar umræður þar.

Jón Hjartarson sagði:

„Þessar fréttir af VG í skoðanakönnun eru fjarskalega slæmar og mjög líklega boða þær komandi langt tímabil með stjórn vinstri flokkanna og allt sem þeim venjulega fylgir, eyðslu annara manna fjármuna þar tíl í óefni er komið.“

Örn Jónasson sagði:

„Já, nú er Framsókn góð hjá Slaufunarbandalaginu (Samfó, Viðreisn og Píratar) og öðru vísi mér áður brá þegar Framsókn var pest í augum þessara bandalagsflokka.

Og svo hamra fjölmiðlar og álitsgjafar Slaufunarbandalagsins (Flettiblaðið, visir.is, Kjarninn, Hringbraut og RÚV) á VG með raðfréttamennsku sinni á slæmu gengi VG til að búa til spuna og hannaða atburðarás.“

Jón Hjartarson hefur rétt fyrir sér um fjárhags- og efnahagslegar afleiðingar vinstri stjórna í landinu. Í Reykjavík ræður fjárhagslegt ábyrgðarleysi og eyðsla umfram efni en skuldabagganum er velt á undan sér á meðan enginn lánardrottinn segir: Hingað og ekki lengra!

Örn Jónasson hittir naglann á höfuðið um spunann og hönnuðu atburðarásina. Ólafur Þ. Harðarson, fyrrv. stjórnmálafræðiprófessor, hefur löngum tekið þátt í slíkum spuna. Hann var í sjónvarpsfréttum sunnudaginn 3. júlí og á ruv.is hefst fréttin um samtalið við hann á þessum orðum:

„Vinstri hreyfingin grænt framboð mun halda áfram að tapa fylgi á kjörtímabilinu ef flokkurinn heldur áfram ríkisstjórnarsamstarfi. Þetta segir stjórnmálafræðiprófessor.“

Skömmu fyrir þingkosningarnar í september 2021 var spuninn á þann veg hjá prófessornum að það yrði gott fyrir lýðræðið að spá hans um minnihlutastjórn mundi rætast. Spáin gekk ekki eftir, þvert á hana styrktu stjórnarflokkarnir stöðu sína.

Á ruv.is veltir fréttamaðurinn upp þeirri draumsýn að VG „gæti aukið fylgi sitt með því að slíta stjórnarsamstarfinu núna á miðju tímabili?“

Ólafur Þ. Harðarson svarar:

„Hann gæti hugsanlega aukið fylgi sitt með því. Það er ekkert ólíklegt. Hins vegar þá er það nú kannski ekki hyggilegt fyrir flokk sem vill vera ábyrgur að slíta stjórnarsamstarfi bara út af hreyfingum í skoðanakönnunum.“

Öll þessi „frétt“ með prófessornum fyrrverandi er ekkert annað en spuni til að halda lífi í hannaðri atburðarás sem er reist á þrá eftir að sprengja ríkisstjórnina og koma höggi á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Ekki er ólíklegt að þetta sé jafnframt liður í að búa í haginn fyrir valdatöku Dags B. Eggertssonar í Samfylkingunni. Aðferðir af þessu tagi einkenna feril hans í stjórnmálum. Beitt er útlilokunum sem eru oftar en ekki reistar á aðför að einstaklingum enda eru málefni aukaatriði í valdabröltinu.