18.3.2025 9:12

Spuni vegna Ásthildar Lóu

Öllum er að sjálfsögðu frjálst að gagnrýna dómstóla og dómara. Efnislega fór dómarinn hér að lögum og beitti undantekningarreglu ráðherranum í vil.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir mennta- og barnamálaráðherra tapaði skaðabótamáli í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. mars 2025. Dómurinn er lokahnykkurinn á margra ára málavafstri ráðherrans og eiginmanns hennar vegna nauðungarsölu húseignar þeirra. Þau töldu sig hafa eignast skaðabótakröfu á ríkissjóð vegna þess að embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hefði staðið ranglega að nauðungarsölu eignarinnar og úthlutun söluverðs hennar til þess sem bað um uppboðið, Arion banka.

Niðurstaða héraðsdómarans er að krafa hjónanna hafi verið fyrnd. Þegar af þeirri ástæðu sé óhjákvæmilegt að sýkna ríkið af kröfum þeirra. Dómarinn notar undantekningarreglu þegar hann ákvarðar greiðslu málskostnaðar. Þykir honum rétt að aðilar beri hvorir sinn kostnað af málinu, fremur en að hjónunum verði gert að greiða ríkinu málskostnað.

Miðað við þungann í málafylgju hjónanna er skrýtið að þau hafi ekki gætt þess að láta kröfu sína ekki fyrnast.

Ásthildur Lóa reiddist niðurstöðu dómarans og sagði: „Við erum löngu hætt að gera ráð fyrir réttlæti hjá íslenskum dómstólum.“ Svo baðst hún afsökunar og sagði: „Ég get ekki fullyrt þetta um alla dómstóla landsins.“

Öllum er að sjálfsögðu frjálst að gagnrýna dómstóla og dómara. Efnislega fór dómarinn hér að lögum og beitti undantekningarreglu ráðherranum í vil.

1554103Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra og eiginmaður hennar við dómsuppkvaðningu (mynd: mbl.is/Eggert Jóhannesson). 

Eftirleikurinn er ekki síður skrýtilegur en að málið skyldi yfirleitt höfðað.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fann að ummælum Ásthildar Lóu um dómstóla landsins. Nafnlaus dálkahöfundur dv.is sá ástæðu til að ráðast á Áslaugu Örnu að þessu tilefni. Hann tók sér stöðu með Semu Erlu Serdar sem gagnrýndi Áslaugu Örnu fyrir að lýsa á myndbandi 2021 yfir stuðningi við þolendur ofbeldis. Nafnleysinginn tínir til að við Sólveig Pétursdóttir studdum Áslaugu Örnu í formannskosningum á landsfundi. Engin skýring er gefin á hvernig það tengist þessu máli.

Þá ræðst nafnleysinginn einnig á Davíð Oddsson fyrir að hafa sem forsætisráðherra gagnrýnt hæstarétt á sínum tíma fyrir niðurstöðu í öryrkjamálinu svonefnda og fyrir að taka eign sína út úr Kaupþingsbanka í nóvember 2003 í mótmælaskyni við samninga sem starfandi stjórnarformaður og annar forstjóri bankans höfðu gert um hlutafjárkaup í bankanum.

Þessi dæmalausi samsetningur hefði farið fram hjá mér hefði hann ekki orðið til þess að Jón Viðar Jónsson birti þetta á FB-síðu sinni 16. mars:

„Það er ekki oft að ég deili hér nafnlausum pistlum, en þessi hittir svo beint í mark að ég fæ ekki staðist freistinguna. Hræsnin í hinni gömlu valdaklíku Sjálfstæðisflokksins, sem nú sleikir sár sín og grætur blóðugum tárum eftir sneypuförina miklu á landsfundinum og nú fær gremju sinni útrás eins og hér er ágætlega lýst, ríður ekki við einteyming. Auðvitað vitum við að allur þorri þjóðarinnar hugsar það sama og Ásthildur Lóa sagði.“

Þessi orð eru fjarri öllu lagi. Ekkert af því sem nafnleysinginn segir snertir innri málefni Sjálfstæðisflokksins. Þar heldur bitur maður á penna til að ná sér niður á öðrum. Hlutur Ásthildar Lóu batnar ekki við svona skrif.