Spuni Samfylkingarinnar
Fullyrðingar um lögbrot eru ekki aðeins spuni Samfylkingarinnar heldur einnig fréttastofu ríkisútvarpsins.
Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður sagði á Facebook þriðjudaginn 15. nóvember:
„Ég hlustaði á formann Samfylkingarinnar fjalla um skýrslu Ríkisendurskoðunar á RÚV í morgun. Þar fullyrti Kristrún að mjög sterkar vísbendingar um lögbrot væru komnar fram í kjölfar birtingar þessarar skýrslu. Mér fannst ansi bratt hjá Kristrúnu að fullyrða þetta því mig minnti að ríkisendurskoðandi hefði einmitt haldið hinu gagnstæða fram um eigin skýrslu í viðtali í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi eftir fund með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Ég hlustaði því aftur á viðtalið sem hefst svona:
Fréttamaður: „Er það mat ykkar að það hafi verið um einhverskonar lögbrot að ræða í þessu söluferli?“
Ríkisendurskoðandi: „Nei, við erum ekki að benda á lögbrot í söluferlinu en við erum hins vegar að benda á ýmsa annmarka í framkvæmd þess, sannarlega.“
Svona verður umræðan væntanlega um þessa skýrslu. Stjórnarandstaðan mun hamra á atriðum sem ekki standa í skýrslunni og krefjast þess að ráðherrar beri ábyrgð á atriðum sem þar er ekki að finna.
Auðvitað er mikilvægt að ræða atriði sem betur mega fara við sölu ríkiseigna. En svona trix eru auðvitað engum til góðs. Ekki einu sinni Samfylkingunni.“
Nauðsynlegt er að halda þessu til haga eins og lögmaðurinn gerir. Fullyrðingar um lögbrot eru ekki aðeins spuni Samfylkingarinnar heldur einnig fréttastofu ríkisútvarpsins. Framgöngu fréttamanna, til dæmis í Kastljósi, er ekki unnt að líkja við annað en upplýsingafalsanir (e. disinformation), það er tilraunir til að afvegaleiða umræður með því að skilja eftir ranghugmyndir í huga þeirra sem hlusta eða lesa.
Í vikunni hnykkti fréttastofa ríkisins á þessu með því að hafa samband við hagfræðing í Danmörku, Guðrúnu Johnsen, sem taldi sig ráða yfir rökum til að krefjast afsagnar Bjarna Benediktssonar vegna lögbrota! Þannig væri staðið að málum annars staðar á Norðurlöndunum. Sá frasi er löngu orðinn úreltur eins og sannast best núna í minkamálinu í Danmörku og umræðum um stöðu Mette Frederiksen forsætisráðherra.
Í dag (18. nóv.) leggur Fréttablaðið sitt af mörkum í spunanum um Kristrúnu Frostadóttur og ágæti hennar með því að birta á forsíðu niðurstöðu könnunar sem á að sýna Kristrúnu njóta meira trausts en Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Engar viðmiðanir því til stuðnings eru fyrir hendi og könnunin er einfaldlega út í bláinn eins og svo margt annað sem nú kemur frá Fréttablaðinu. Það hefur það helst til ágætis núna að vera dreift við hlið Bændablaðsins í stórmörkuðum. Væri traust til blaðanna kannað yrði Bændablaðið örugglega hlutskarpara.