17.11.2021 9:34

Spítalinn og veiran

Það er furðulegt að sjá lækna ganga fram fyrir skjöldu og leggja áherslu á að gera baráttu við kórónuveiruna að flokkspólitísku máli.

Það er furðulegt að sjá lækna ganga fram fyrir skjöldu og leggja áherslu á að gera baráttu við kórónuveiruna að flokkspólitísku máli.

Sunnudaginn 14. nóvember sagði Steinunn Þórðardóttir, öldrunarlæknir og formaður læknaráðs Landspítalans, að spítalinn hefði verið fjársveltur frá hruni og það hefði verið búið að vara við því að hann myndi ekki ráða við heimsfaraldur. Orðin féllu í Silfrinu á ríkisútvarpinu og voru endurflutt í hádegisfréttum með þessu innskoti Brynjólfs Þór Guðmundssonar fréttamanns:

„Steinunn virtist þar vísa til orða stjórnmálamanna. Nokkrir ráðherrar Sjálfstæðisflokks hafa á síðastliðnum mánuðum ýmist gagnrýnt vangetu heilbrigðiskerfisins til að ráða við faraldurinn eða harma strangar sóttvarnatakmarkanir með vísan til stöðunnar á Landspítala.“

Það er ekki nýtt og hefur verið rætt árum saman hvernig staðið er að fjárveitingum til Landspítalans og hvernig þeir fjármunir nýtast. Innan sjúkrahússins eru ekki endilega allir á einu máli um þann þátt málsins eins og dæmin sanna. Það er því nauðsynlegt að rökstyðja vel að allur vandi spítalans leysist með meira fé frá skattgreiðendum. Margt annað er í boði. Hitt er til marks um hlutdrægni að fréttamaðurinn noti tækifærið til að lýsa eigin skoðun og vega að ráðherrum Sjálfstæðisflokksins í nafni læknisins.

Landspitali-13-1024x683-1024x683Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, vegur í sama knérunn og fréttamaður ríkisútvarpsins í grein á vefsíðu sinni í dag. Boðskapurinn er sá að þeir sem dragi í efa nauðsyn aukinnar hörku gagnvart almennum borgurum vegna sóttvarna séu óvinir Landspítalans. Þeir vilji í raun rústa heilbrigðiskerfinu með því að eyðileggja spítalann.

Þetta er forkastanlegur málflutningur. Þeir sem hann stunda líta á staðnaðan ríkisrekstur í heilbrigðismálum sem óumbreytanlegan og ekkert geti komið í hans stað. Þeir neita að horfast í augu við að ríkisreksturinn og fastheldni í hann er undirrót vandans en ekki fjárskortur.

Eitt er að vera haldin þessari ofurtrú á ríkisrekstri og hitt að ákveða að gera konur í ráðherrahópi Sjálfstæðisflokksins að sérstökum óvinum sínum til varnar Landspítalanum og nota til þess hræðslu við kórónuveiruna. Þetta er ótrúleg kenningasmíð en engu að síður staðreynd þegar farið er í saumana á málflutningnum.

Spurning vaknar hvort að baki býr ótti við að ríkisforsjáin njóti sín ekki áfram við stjórn heilbrigðismála með nýrri ríkisstjórn. Óttinn við það ráði árásunum á konur í ráðherraliði sjálfstæðismanna. Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í Morgunblaðinu í dag (17. nóv.):

„Leikir sem lærðir veigra sér við að spyrna við fótum og spyrja alvarlegra en nauðsynlegra spurninga þar sem óskað er eftir rökstuðningi fyrir hvers vegna frelsi einstaklinga er takmarkað og hvort of langt sé gengið [í sóttvörnum]. Þeim er mætt af fullkominni hörku og á stundum með svívirðingum. Þar ganga því miður læknar, sem fá útrás fyrir hégóma í sviðsljósi fjölmiðla, hart fram.“

Það þarf engan að undra þótt sjálfstæðismenn uni því ekki að ranglega sé að þeim vegið sem sérstökum óvinum Landspítalans.