22.11.2020 11:39

Spilling, sóttvarnir, skoðanafrelsi

Mikil reiði hefur gripið um sig í Danmörku vegna þess hvernig Mette Frederiksen, forsætisráðherra jafnaðarmanna, hefur beitt sér vegna COVID-19-faraldursins.

Stundum er allt sagt verra hér en annars staðar, litið til stjórnarhátta. Fljótt er gripið til þess málflutnings að í öðrum löndum taki menn öðru vísi – og betur – á málum. Nýlegt dæmi er reiðin sem birtist í viðbrögðum fréttastofu ríkisútvarpsins vegna þess að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra „leyfði sér“ að gera athugasemd við útleggingu í fréttaþættinum Speglinum á nýrri Greco-skýrslu þar sem erlendir sérfræðingar leggja á ráðin um það sem betur má fara í stjórnsýslu aðildarlandanna. Séu þeir ekki að fullu ánægðir er sagt að hér ríki „spilling“ á viðkomandi sviði. Er það í raun rétta orðið um þetta ferli?

Fréttastofa ríkisútvarpsins setur sig á háan hest gagnvart „spillingu“ dómsmálaráðherra en þegir um ávirðingarnar á hendur ríkisútvarpinu frá innlendum eftirlitsaðilum vegna þess að ekki er farið að reglum um bókhald við reikningsskil auk þess sem túlkun á þjónustusamningi ríkisútvarpsins við menntamálaráðuneytið standist ekki. Langlundargeð menntamálaráðherra gagnvart ríkisútvarpinu vegna þessara athugasemda og annarra er undrunarefni. Hvað mundu Greco-menn segja yrði þetta lagt fyrir þá? Er þetta eitthvað sem kalla má spillingu?

Frá Bretlandi bárust þær fréttir fyrir nokkrum mánuðum að innanríkisráðherrann sýndi samstarfsfólki óþolandi hroka og lítilsvirðingu. Þar í landi er unnt að kalla á sjálfstæðan eftirlitsaðila til að leggja mat á kvartanir af þessu tagi. Það var gert. Hann skilaði skýrslu. Forsætisráðherrann tók ekki mark á henni. Innanríkisráðherrann situr áfram og lofar bót og betrun. Eftirlitsmaðurinn sagði hins vegar af sér. Gæti þetta gerst hér?

Trak-manglerMyndin er tekin á Löngulínu í Kaupmannahöfn laugardaginn 21. nóvember og sýnir dráttarvélarnar sem fluttar voru til höfuðborgarinnar til að mótmæla minkarápunum.

Mikil reiði hefur gripið um sig í Danmörku vegna þess hvernig Mette Frederiksen, forsætisráðherra jafnaðarmanna, hefur beitt sér vegna COVID-19-faraldursins. Blaðið Jyllands-Posten fer mjög hörðum orðum um forsætisráðherrann eins og sjá má hér.

Í leiðara í dag (22. nóvember) gagnrýnir Jyllands-Posten lögregluna harðlega fyrir framgöngu hennar í minkahneykslinu og segir:

„Lögreglan á að sjá til þess að farið sé að lögum. En hvað gerist þegar lögreglan brýtur þau sjálf? Lögreglumenn hringdu til um 250 minkaræktenda og reyndu að knýja þá til að aflífa dýr sín þótt dómsmálaráðuneytið hefði áður varað við skorti á lagaheimild. Það voru meira að segja samdir þaulhugsaðir talpunktar svo beita mætti minkaræktendur hámarksþrýstingi hins opinbera – af lögreglunni! Þetta verður varla mikið verra. Hér er um að ræða skipulagt hrun réttarríkisins sem krefst eigin rannsóknar. Þarna er opinberu valdi beitt á fordæmislausan hátt, vegna þessa ættu allar neyðarbjöllur að hringja í Kristjánsborg [þinghúsinu]. Eins og sagt er: Lögreglan ekur sjálf yfir á rauðu.“

Óljóst er hver pólitíska framvindan verður í Danmörku vegna minkahneykslisins. Þar er þó ágreiningi vegna aðferða í baráttunni við heimsfaraldurinn ekki sópað undir teppið eins og reynt er að gera hér með því að ala á tortryggni í garð þeirra sem viðra önnur sjónarmið en þau sem teljast „rétt“. Eitt er að fara að ráðum yfirvalda og virða reglur um sóttvarnir annað að hafa aðrar skoðanir en yfirvaldanna og viðra þær. Sóttvarnareglur hafa ekki verið settar gegn skoðanafrelsi ­– eða hvað?