14.12.2019 10:14

Spennan magnast innan RÚV ohf.

Í tilefni af ráðningu útvarpsstjóra og vegna skýrslu ríkisendurskoðunar kaus stjórn RÚV ohf. að hefja fjölmiðlaspuna sem rýrir trúverðugleika hlutafélagsins og stjórnar þess.

Alls sótti 41 um starf útvarpsstjóra. Í tilkynningu frá ríkisútvarpinu (RÚV ohf.) segir að stjórn opinbera hlutafélagsins ráði útvarpsstjóra og á næstu vikum verði farið yfir umsóknir. Stjórnin hafi fengið fyrirtækið Capacent til að hafa umsjón með því verkefni. Stjórn RÚV stefni að því að ganga frá ráðningu nýs útvarpsstjóra í lok janúar 2020.

Listi yfir umsækjendur hefur ekki verið birtur þótt vilji Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, hafi staðið til þess. Hún ber pólitíska ábyrgð á að allt fari fram að lögum og reglum hjá þessu opinbera hlutafélagi sem fær um 5.000 milljónir króna af skattfé ár hvert auk þess að hafa tekjur af auglýsingum.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði á Bylgjunni að morgni föstudags 13. desember að auglýsingadeild Ríkisútvarpsins tæki til sín stóran bita af auglýsingakökunni, með sínum „framsækna hætti“. Falla þau orð að skoðunum keppinauta ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði sem berjast fyrir lífi sínu fjárhagslega. RÚV ohf. beitir sér af hörku gegn keppinautum sínum um auglýsingar.

Þegar ríkisendurskoðun skilaði skýrslu á dögunum þar sem fram kom að RÚV ohf. bryti lög með því að stofna ekki dótturfélag um samkeppnisrekstur sinn gaf stjórn RÚV ohf. til kynna, að lögbrotið væri framið með samþykki ef ekki velvilja mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Í Fréttablaðinu í dag (14. desember) birtist frétt með þessum inngangi: „Mennta- og menningarmálaráðuneytið hafnar því að hafa haft samráð við Ríkisútvarpið ohf. um að bíða með að stofna dótturfélag þangað til úttekt Ríkisendurskoðunar lægi fyrir.“

Eftir að hafa kallað eftir skjölum úr ráðuneytinu kemst Fréttablaðið að ofangreindri niðurstöðu. Ráðuneytið svaraði erindinu eftir þrjár vikur og segir blaðið: „Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er málið viðkvæmt innan veggja ráðuneytisins vegna embættismanna sem hafa mikinn vilja til að ganga erinda RÚV.“

Í skjölum ráðuneytisins kemur fram ráðuneytið hvatti stjórn RÚV til að grípa til ráðstafana um stofnun dótturfélaga og fara að fyrirmælum Ríkisendurskoðunar um breytingar á bókhaldi, segir í Fréttablaðinu.

Í tilefni af ráðningu útvarpsstjóra og vegna skýrslu ríkisendurskoðunar kaus stjórn RÚV ohf. að hefja fjölmiðlaspuna sem rýrir trúverðugleika hlutafélagsins og stjórnar þess. Má velta fyrir sér hæfni hennar til að takast á við mál af þessum toga.

Innan opinbera hlutafélagsins bíða menn með öndina í hálsinum eins og þessi FB-færsla dagskrárgerðarmannsins Eiríks Guðmundssonar sýnir:

79294983_2759494060830355_9034901136670195712_n