Spænskir sósíalistar fara á dönsku línuna
Á sama tíma og íslenskir jafnaðarmenn hampa andstöðu við harða útlendingastefnu draga spænskir sósíalistar í land.
Við stjórnarskiptin á Spáni í byrjun júní, þegar sósíalistar tóku við af Lýðflokknum (mið-hægri) varð breyting á útlendingastefnu ríkisstjórnarinnar. Hún birtist öllum í því að spænsk yfirvöld tóku á móti skipum sem nýleg stjórn á Ítalíu bannaði að koma til hafnar í landi sínu. Aðdráttarafl Spánar fyrir flótta- og farandfólk blasti við öllum auk þess sem stjórnin lofaði þeim sem leituðu hælis í landinu jafnvel betri félagslegri aðstoð en Spánverjar njóta sjálfir.
Þessi mynd fer nú um heim allan og sýnir flótta- og farandfólk hlaupa upp baðströnd á Spáni eftir að hafa siglt þangað frá Marokkó.
Miðað sama tíma og í fyrra hefur straumur flótta- og farandfólks til Spánar nú þrefaldast. Allar spænskar móttökustöðvar eru yfirfullar og á fréttasíðum birtast myndskeið tekin af baðstrandargestum sem sýna aðkomumenn lenda á gúmmítuðrum í hvítum sandinum og hlaupa sem fætur toga í felur í von um að finna skjól einhvers staðar í Evrópu. Hér má lesa um þetta.
Í umræðum um komu Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins, hingað til lands hefur athygli beinst að stefnu Samfylkingarinnar í útlendingamálum. Forystumenn flokksins, Logi Einarsson formaður, og Helga Vala Helgadóttir alþingismaður, hafa svarið af sér að Samfylkingin fylgi sömu stefnu í útlendingamálum og danskir jafnaðarmenn. Logi og Helga Vala hallast greinilega að þeirri stefnu sem spænskir sósíalistar hrundu í framkvæmd í byrjun júní 2018.
Á sama tíma og íslenskir jafnaðarmenn hampa þessum sjónarmiðum draga spænsku sósíalistarnir í land. Þeir átta sig á að smyglararnir tóku þá á orðinu og á innan við tveimur mánuðum hafa þeir ákveðið að taka upp stefnu fyrri ríkisstjórnar í hólmlendunni Ceuta í Marokkó og beita valdi til að loka henni fyrir straumi hælisleitenda.
Á fjárlögum þessa árs eru 2,7 milljarðar króna eyrnamerktir þjónustu við hælisleitendur sem bíða hér úrlausnar sinna mála. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra ætlar að nýta allt að 120 milljónir af þessu fé til að styrkja rekstur Útlendingastofnunar. Þetta er skynsamleg ákvörðun til að stytta óhóflegan afgreiðslutíma hjá stofnuninni sem getur orðið allt að 200 dagar.
Um mitt ár í fyrra var gripið til aðgerða til að sporna við því að fólk frá ríkjum sem skilgreind eru sem örugg sækti hér um hæli. Með þessu tókst að afgreiða um þrjú hundruð manna hóp frá þessum ríkjum, en kostnaður við framfærslu hans sé um 1,2 milljarðar á ári.
Hælismsóknum frá þegnum öruggra ríkja hefur fækkað mjög – til að mynda fækkaði umsóknum frá albönskum ríkisborgurum úr 146 á fyrri helmingi síðasta árs í 47 á þessu ári, umsóknum frá Makedóníumönnum úr 39 í tvær og Georgíumönnum úr 62 í 22. Á síðari helmingi síðasta árs sóttu yfir 200 Georgíumenn hér um hæli. Nú segir Sigríður við ríkisútvarpið að aðeins taki um fjóra daga að afgreiða umsóknir frá þegnum öruggra ríkja.
Fagna ber þessum umskiptum í afgreiðslu hælisumsókna hér á landi og framtaki dómsmálaráðherra til að gera enn betur. Spænska sósíalistastjórnin fór aðra leið og stendur nú frammi fyrir meiri vanda en hún veldur – hún vill milda fréttir af ósigri sínum með því að segjast ætla að beita sér fyrir nýjum reglum innan ESB! Á Spáni færa sósíalistar sig yfir á dönsku jafnaðarmannalínuna í útlendingamálum til að styrkja stöðu sína í næstu kosningum. Samfylkingin hreyfir sig hvergi – hvers vegna? Hverra hagsmuna er hún að gæta í útlendingamálum?