Sósíalistar eins og „verstu skúrkar“
Sólveig Anna hrópaði á Facebook 21. október 2018 „... kallið mig byltingarkonu, í guðanna bænum! Megi þá helvítis byltingin lifa.“
Æ betur skýrist hvaða stjórnarháttum er beitt af sósíalistunum sem náðu tökum á Eflingu stéttarfélagi í mars 2018 undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur með aðstoð Viðars Þorsteinssonar og Gunnar Smára Egilssonar, forystumanna Sósíalistaflokks Íslands.
Sólveig Anna hefur hvað eftir annað sagt boðskap sinn byltingarkenndan meðal annars á Facebook 21. október 2018 þegar hún hrópaði „... kallið mig byltingarkonu, í guðanna bænum! Megi þá helvítis byltingin lifa.“
Mánuðum saman hafa Sólveig Anna og félagar neitað að ræða við starfsmenn sem þau ýttu til hliðar við valdatöku sína. Sólveig Anna telur sér hafa verið heimilt að beita fólkið ofríki að eigin geðþótta af því að hún hafi fengið 80% greiddra atkvæða í formannskjöri. Þá voru 16.578 sagðir á kjörskrá, 2.618 greiddu atkvæði og hlaut listi Sólveigar Önnu 2099 atkvæði, um 8% félagsmanna studdu hana en þeir voru sagðir 27.000 á vefsíðu félagsins í mars 2018.
Myndin birtist á forsíðu Morgunblaðsins föstudaginn 22. febrúar og sýnir Stefán Ólafsson, hagfræðilegan ráðunaut Eflingar, Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóra Eflingar, og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, á leið frá ríkissáttasemjara eftir að hafa slitið viðræðum til að geta hafið verkfallsbaráttuna. Ljósm. Eggert.
Ein þeirra sem var ýtt til hliðar í hreinsunum sósíalistanna á skrifstofu Eflingar var Kristjana Valgeirsdóttir, fjármálastjóri Eflingar. Gunnar Smári Egilsson réðst á hana persónulega á opinberum vettvangi og taldi hana hafa gert greiðslur Eflingar til eiginkonu sinnar, Öldu Lóu Leifsdóttur, að fréttaefni vegna deilna við yfirmenn sína á skrifstofu félagsins. Hann sakaði einnig Kristjönu um spillingu í starfi.
Kristjana Valgeirsdóttir sendi frá sér yfirlýsingu sunnudaginn 22. september 2019 og segir að Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, og formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, hafi neytt sig í veikindaleyfi og reynt að bola sér úr starfi. Hún segir að Viðar „gleymi því vísvitandi að það voru athugasemdir mínar og bókara Eflingar vegna ósamþykktra fjárútláta, til vildarvina hans og formanns félagsins, sem leiddu til þess að mér og bókara var gert ókleift að starfa og við hrökkluðumst í veikindaleyfi“. Kristjana segir einnig:
„Staðreyndin er sú að þau Sólveig Anna Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson hafa aldrei léð máls á neinum samningum við okkur starfsmenn. Þau tala eingöngu við okkur í gegnum lögfræðinga sína og hafa aldrei, á undanförnum mánuðum, fallist á samningaviðræður.[...] Forysta Eflingar hagar sér þannig eins og verstu skúrkar í atvinnurekendastétt.“
Í lok yfirlýsingarinnar segir Kristjana:
„Við starfsmenn, burtreknir og fólk í veikindaleyfi, erum fórnarlömb þeirrar atburðarásar sem formaður og framkvæmdastjóri Eflingar settu af stað þegar þau komust til valda í félaginu.“
Elín Hanna Kjartansdóttir, fyrrverandi bókari Eflingar, sendi einnig frá sér yfirlýsingu 22. september 2019 þar sem hún fordæmir framkomu Sólveigar Önnu og Viðars Þorsteinssonar í sinn garð. Hún eigi ekki nógu sterk orð yfir virðingarleysið sem sér og öðrum félagsmönnum Eflingar hafi verið sýnt.