6.10.2018 11:10

Sósíalísk fjármála- og harðstjórn í Eflingu stéttarfélagi

Stjórnarháttum Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns og Viðars Þorsteinssonar framkvæmdastjóra er lýst sem harðstjórn.

Lýsingin í Morgunblaðinu í morgun (6. október) þar sem Agnes Bragadóttir blaðamaður segir frá valdatöku Sósíalistaflokks Íslands undir forystu Gunnars Smára Egilssonar í Eflingu stéttarfélagi minnir á lýsingar fyrri tíma þegar sellur kommúnista brutust til valda í krafti fámenns hóps (aðeins 10% af rúmlega 19.000 félagsmönnum Eflingar tóku þátt í stjórnarkjörinu í mars 2018). Í sjóðum Eflingar eru 12 milljarðar króna.

Stjórnarháttum Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns og Viðars Þorsteinssonar framkvæmdastjóra er lýst sem harðstjórn. Þau hafa hreinsað þá út úr 50 manna starfsliði Eflingar sem ekki lúta vilja þeirra. Hófust hreinsanirnar  þegar Þráinn Hallgrímsson skrifstofustjóri var rekinn fyrirvaralaust á stjórnarfundi og Viðar ráðinn framkvæmdastjóri 27. apríl 2018. Þau Sólveig Anna og Viðar ráku einnig Hörpu Ólafsdóttur hagfræðing.

31408427_1543167259114758_9166046322376048640_nSólveig Anna Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson - myndin er af FB-síðu Viðars við ráðningu hans sem framkvæmdastjóra Eflingar 27. apríl 2018.

Undir lok júní 2018 var tilkynnt að Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði hefði verið ráðinn í hálft starf sem sérfræðingur í vinnumarkaðs- og lífskjararannsóknum hjá Eflingu meðfram því sem hann stundaði áfram rannsóknir og kennslu í háskólasamfélaginu. Stefán mundi leiða rannsóknar- og greiningarvinnu auk þess sem hann yrði formanni og stjórn til ráðgjafar um stefnumótun í kjaramálum og á tengdum sviðum.

Nú hefur fjármálastjóra Eflingar og bókara verið ýtt til hliðar eftir að fjármálastjórinn vildi leita umboðs stjórnar til að greiða reikning (1 milljón króna) frá Öldu Lóu Leifsdóttur, eiginkonu Gunnars Smára. Áður hafði Alda Lóa fengið greiddar um 4 milljónir króna úr sjóðum félagsins, segir í Morgunblaðinu. Vinna hennar felst í myndatöku. Má meðal annars sjá myndir af félagsmönnum Eflingar á eigin Facebook-síðu hennar.

Sólveig Anna neitar að svara öllum spurningum Agnesar Bragadóttur og ber fyrir sig að hún kjósi að tjá sig ekki um innri mál skrifstofunnar, sökum trúnaðar við starfsfólk. Er þessi þögn í hróplegu ósamræmi við boðskap Gunnars Smára um gegnsæi og nauðsyn þess að þeir kannist við ábyrgð sína sem hana bera.

Um árabil hefur Gunnar Smári notið meiri verndar á fjölmiðlavettvangi en aðrir sem staðið hafa í svipuðum fjármálasviptingum og hann.