31.7.2019 10:07

Sönnunarbyrði vegna sæstrengs

Engin rök fyrir skyldu íslenska ríkisins til að setja sæstreng í samband í óþökk þings og þjóðar.

Arnar Þór Jónsson héraðsdómari gekk fram á ritvöllinn fyrr í sumar og reyndist hvalreki fyrir andstæðinga þriðja orkupakkans. Í grein í Morgunblaðinu laugardaginn 27. júlí mildaði hann upphaflega afstöðu sína og fjallaði almennum orðum um fullveldið og nauðsyn gæslu þess; sígilt viðfangsefni stjórnmálamanna og lögfræðinga í rúm 100 ár. Eftir að greinin birtist í blaðinu var hún endurbirt á mbl.is um helgina og mánudaginn 29. júlí sagði höfundur Staksteina „sem [greinina] þingmenn hafa vonandi lesið bæði vel og vandlega“.

Arnar Þór hefur stillt okkur sem teljum hættulaust fyrir fullveldið að innleiða þriðja orkupakkann upp við vegg með kröfu um að við sönnum að ekki komi til þess, samþykki alþingi innleiðinguna, að stórfyrirtæki leggi hingað sæstreng og heimti skaðabætur af ríkinu, fái það ekki að stinga strengnum í samband. Þetta er að mati Arnars Þórs ekki aðeins stórhætta fyrir skattgreiðendur heldur einnig fullveldið.

Hér er sem sagt heimasmíðuð sviðsmynd og þess krafist af öðrum að sanna að hún rætist ekki. Geti þeir það ekki séu þeir talsmenn stórtjóns fyrir þjóðarbúið, valdaframsals og aðfarar að fullveldinu. Málatilbúnaðurinn dæmir sig sjálfur en rökin fyrir honum eru engin eins og til dæmis lýst er í grein sem Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, birtir í Fréttablaðinu miðvikudaginn 31. júlí. Þar segir:

„Af túlkunarreglum þjóðaréttar leiðir að skýra verður ákvæði EES-samningsins um frjálst flæði vöru til samræmis við ákvæði hafréttarsamningsins. Það þýðir að meginreglan um frjálst flæði vöru leiðir ekki til þess að á íslenska ríkinu hvíli skylda til að heimila lagningu sæstrengs sem flytur rafmagn hingað til lands. Íslenska ríkið getur því ekki orðið skaðabótaskylt af því að synja rétti sem er ekki til staðar. Það er útilokað. Að halda öðru fram er nýlunda í sögu alþjóðasamskipta.

Réttur Íslands til að heimila eða hafna lagningu sæstrengs inn fyrir landhelgina stendur óhaggaður hvað sem þriðja orkupakkanum eða öðrum ákvæðum EES-samningsins líður.“

Screenshot_2019-07-31-190731-pdf-190731-pdfÍ Morgunblaðinu í dag (31. júlí) birtist grein eftir Viðar Guðjohnsen, lyfjafræðing og sjálfstæðismann. Þar segir meðal annars:

„Í umræðunni um þriðja orkupakkann hefur verið gengið hart að okkur flokksmönnum og við vændir um að vera einangrunarsinnar eða gamalmenni því við teljum að hin íslenska orkustefna hafi reynst þjóðinni vel, þ.e. að hið opinbera eigi virkjanir og útvegi ódýra raforku til fyrirtækja og landsmanna.“

Hverjir það eru sem sært hafa tilfinningar andstæðinga orkupakkans innan Sjálfstæðisflokksins með slíku orðbragði segir ekki í greininni. Að þetta séu verstu orðin sem hafa fallið um menn og málefni í orrahríðinni er af og frá og skal þá ekki gert lítið úr viðkvæmni þeirra sem Viðar skjaldar með orðum sínum. Hitt er ekki rétt hjá honum að stuðningur við innleiðingu þriðja orkupakkans sé reistur á andstöðu við að virkjanir séu í opinberri eigu hér og selji ódýra raforku.