4.1.2023 9:37

Sólveig Anna tapar í félagsdómi

Skýrara verður þetta ekki. Það voru með öðrum orðum mannvonska og duttlungar Sólveigar Önnu auk ofríkis sem réðu för hjá henni.

Félagsdómur kvað 3. janúar 2023 upp dóm í máli Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR) gegn Alþýðusambandi Íslands f.h. Eflingar stéttarfélags. Vildi VR fá viðurkennt með dómi að uppsögn Eflingar 13. apríl 2022 á trúnaðarmanni VR, Gabríel Benjamín, hjá Eflingu stéttarfélagi hefði verið ólögmæt og brotið gegn 11. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Efling hefði brotið gegn þessari lagagrein með uppsögn sinni á Gabríel Benjamín og í dóminum segir meðal annars að í ljósi þeirrar ríku verndar sem hann naut sem trúnaðarmaður VR hjá Eflingu hafi verið sérstök ástæða fyrir Eflingu að kanna hvort unnt væri að komast hjá uppsögn hans þegar efnt var til hópuppsagnar til að losa nýendurkjörinn formann Eflingar, Sólveigu Önnu Jónsdóttur, við starfsfólk á skrifstofu félagsins.

Þá telur dómurinn að einnig hafi verið svigrúm hjá Eflingu til að láta Gabríel Benjamín „sitja fyrir um vinnu þannig að ekki þyrfti að koma til uppsagnar hans

í tengslum við skipulagsbreytingar“ hjá Eflingu. Af þeim sökum hafi uppsögn hans hvorki verið „nauðsynleg né óhjákvæmileg í tengslum við almennar skipulagsbreytingar“ Eflingar. Því taldi dómurinn að Efling hefði ekki „sýnt fram á nægilegar ríkar ástæður fyrir þeirri ákvörðun“ að reka Gabríel.

Þess vegna braut uppsögnin gegn 2. málslið 11. gr. laga nr. 80/1938 og var því „ólögmæt“.

Skýrara verður þetta ekki. Það voru með öðrum orðum mannvonska og duttlungar Sólveigar Önnu auk ofríkis sem réðu för hjá henni.

324083732_1602096333643317_184182798218523954_nViðbrögð formanns Eflingar voru snögg við dómi Félagsdóms, strax að kvöldi sama dags og hann birtist veitist Sólveig Anna að Gabríel Benjamín persónulega á Facebook síðu sinni og kallar hann „fáránlegan einstakling“ sem hafi skrifað „snarbilaða níðgrein“ um hana, þá sé hann svo „stórundarlega innréttaður“ að hafa látið færa til bókar í fundargerð hjá Eflingu að Sólveig Anna þyrði „ekki að mæta honum og horfa í augun á honum“. Þá sakar hún hann einnig um að hafa logið um sjúkradagpeninga.

Eins og fram kemur telur félagsdómur að Efling hefði átt að láta Gabríel Benjamín sitja fyrir um vinnu í stað uppsagnar. Af þessu tilefni segir Sólveig Anna „og félagsdómur tekur undir þær trylltu ranghugmyndir af sínum ríkulega sakfellingarvilja [að Gabríel] ætti að vera undanskilinn skipulagsbreytingunni“.

Þá segir Sólveig Anna:

„Og hann [Gabríel] kallar mig einræðisherra fyrir að hafa ekki talið rétt að krýna hann sérstakan skrifstofuprins Eflingar. Þetta er svo gjörsamlega fáránlegt að ég get ekki annað en hlegið.“

Sólveig Anna kemur nú til kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins (SA) í fylgd um 80 „svartstakka“. Ef venjulegt fyrirtæki hefði verið í sporum Eflingar og í sambærilegu stríði við starfsfólk sitt hefði Sólveig Anna örugglega neitað að setjast að fundarborði með SA nema fyrirtækið yrði rekið úr SA. Freklegri aðför að starfsöryggi launafólks en hjá Eflingu þekkist ekki hér í seinni tíð.