31.1.2020 10:10

Sólveig Anna krefst hreinsana hjá SA

Þessi boðskapur formanns Eflingar er í samræmi við hreinsanirnar sem hún greip til eftir að um 8% félagsmanna Eflingar höfðu tryggt henni formannssæti í félaginu.

Innan verkalýðshreyfingarinnar sem utan verður æ fleirum ljóst að fyrir Sólveigu Önnu Jónsdóttur og félögum hennar í Eflingu vakir fyrst og síðast að brjóta upp nýgerðan lífskjarasamning, sem fulltrúar samþykktu þó á sínum tíma. Þetta er sósíalíska aðferðin til að stofna til illinda í samfélaginu.

Sólveig Anna birti grein undir sínu nafni á á vefsíðunni visir.is fimmtudaginn 30. janúar þar sem hún ræðst á persónulegan hátt á Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA), segir hann ekki starfi sínu vaxinn, honum sé best að snúa sér að öðru. Þessi boðskapur formanns Eflingar er í samræmi við hreinsanirnar sem hún greip til eftir að um 8% félagsmanna Eflingar höfðu tryggt henni formannssæti í félaginu og flokksbræðrum hennar í Sósíalistaflokknum starfsaðstöðu í skrifstofu félagsins. Spunaliði Sólveigar Önnu er Gunnar Smári Egilsson, stjórnarformaður Sósíalistaflokksins, sem beitti sér fyrir flokknum eftir að hafa skilið starfsfólk Fréttatímans eftir á köldum klaka.

Halldor-Benjamin-22Mynd úr Þjóðmálum af Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóri SA.

Reiðin sem birtist í greininni undir nafni Sólveigar Önnu er meðal annars reist á viðtali við Halldór Benjamín sem birtist í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála. Þar segir framkvæmdastjóri SA meðal annars:

„Ef við horfum aftur í tímann sjáum við að íslenskur vinnumarkaður hefur einkennst af hinu margþekkta höfrungahlaupi. Stéttir A til Æ semja en svo kemur Ö og semur um aðeins meira. Þá þarf að leiðrétta allar hinar og svona gengur þetta endalaust fyrir sig. Á því höfrungahlaupi tapa allir og þeir mest sem minnst hafa á milli handa.“

Sólveig Anna reiðist að á þessa staðreynd sé minnst. Hún beitir sér nú einmitt á þennan hátt í kjaramálunum. Hún segist berjast fyrir þá lægst launuðu og ætlar í krafti þess að brjóta samninginn sem hún gerði við SA á bak aftur. Skemmdarverkið bitnar síðan þyngst á lægst launaða hópnum sem hún segist bera fyrir brjósti. Hræsnin er augljós.

Hörður Ægisson segir í leiðara Fréttablaðsins í dag (31. janúar):

„Forystufólki Eflingar hefur tekist, með snjöllum og vel útfærðum hætti, að taka sér dagskrárvaldið. Flestir fjölmiðlar spila með í meðvirkni sinni, mögulega af ótta við viðbrögðin að öðrum kosti úr herbúðum stéttarfélagsins. Það sama á við um háskólamenn sem veigra sér margir við því að stíga fram og útskýra, sem þeir ættu að gera þekkingar sinnar vegna og í raun skyldu, afleiðingarnar fyrir vinnumarkaðinn ef orðið verður við kröfum Eflingar. Á meðan spilar meirihluti stjórnmálamanna á stundarvinsældir. Allir sem ekki bugta sig og beygja gagnvart málflutningi Eflingar, sem sagan hefur sýnt að er hættulegur og elur á sundrung í samfélaginu, eru umsvifalaust skilgreindir sem hluti af einhverjum efnahagslegum forréttindahópi og ómarktækir sem slíkir – óvinir fólksins. Byltingarfólkið í Eflingu fær því sitt fram og einokar umræðuna án mikillar mótspyrnu.“

Það er ekkert nýtt að lýðskrumarar hafi þau áhrif sem Hörður lýsir. Enginn ábyrgur aðili getur afsakað sig með því að ekki hafi verið bent á hættuna af aðför þessa fólks að efnahag þjóðarinnar. Að snúast ekki til varnar er hættuspil.