20.5.2018 11:17

Sögulegt brúðkaup í Windsor

Að fylgjast með því hvernig stærstu sjónvarpsstöðvar heims gerðu atburðum dagsins skil var í sjálfu sér hreint ævintýri.

Jón Magnússon, fyrrv. alþingismaður, undraðist í gær (19. maí) að ríkissjónvarpið íslenska sýndi í nokkrar klukkustundir frá brúðkaupinu í kapellu heilags Georgs í Windsor kastala á Englandi þar sem þau voru gefin saman Harry, prins, barnabarn Elísabetar II. Bretadrottingar og Meghan Markle, leikkona frá Bandaríkjunum. Taldi Jón hreinan óþarfa að sýna þennan viðburð á þennan hátt. Hann sagðist í sjálfu sér ekki amast við ráðahagnum heldur þætti sér sem lýðveldissinna óþarft að gera kóngafólki svo hátt undir höfði.

Alsæl að athöfn lokinni.

Í athugasemd við færslu Jóns á Facebook sagði einn þeirra sem horfði á íslensku útsendinguna: „Megan hefur verið kvænt áður, sagði þulan. Skondið.“ Já, vissulega skondið og sýnir hve mikilvægt er að hafa gott vald á tungumálinu þegar gengið er til verks að lýsa atburðum beint í sjónvarpi eða á öðrum vettvangi.

Að fylgjast með því hvernig stærstu sjónvarpsstöðvar heims gerðu atburðum dagsins skil var í sjálfu sér hreint ævintýri. „Talið er að um heim allan horfi 1,9 milljarður manna á útsendinguna,“ sagði Kirsty Young sem var í hópi fjölmargra fréttamanna BBC sem birtust á skjánum.

Frásagnir bresku blaðanna í dag einkennast af mikilli hrifningu yfir öllu sem fyrir augu og eyru bar í brúðkaupinu. Að vísu sagði  sjónvarpsmaðurinn Piers Morgan að sér hefði þótt nóg um allt Hollywood-liðið í kirkjunni og þegar hann sá einhverjum óverðugum bregða fyrir á sjónvarpsskjánum hefði hann gengið aftur að bréfalúgunni til að kanna hvort hann sjálfur hefði örugglega ekki fengið boðskort.

Amal og George Clooney

Fylgst var nákvæmlega með klæðaburði gestanna og Allison Pearson segir á vefsíðunni The Telegraph:

„Victoria Beckham [eiginkona knattspyrnumannsins] var óaðfinnanlega klædd. Fyrir jarðarför. Flotablár klæðnaður hennar var álíka ólundarlegur og svipbrigðin sem breyttust ekki einu sinni inni í kirkjunni þegar vinsamlegt fólk reyndi að vísa henni til sætis. (Haldi hún að þetta geri hana „kúl“ er það misskilningur, þetta gerir hana ruddalega.) Amal Clooney [eiginkona leikarans] sýndi hvernig á að gera þetta með djarflegri framgöngu í Colmans-sinnepsgulum klæðnaði og reynast sigursæl.“

Allison Pearson segir að einkennisbúningurinn sem Harry klæddist hafi minnt sig á foringja í Hjálpræðishernum en brúðarkjóll Meghan hafi hins vegar vakið minningu um einfaldan glæsileika síðustu bandarísku leikkonunar sem giftist inn í evrópska kóngafjölskyldu, Grace Kelly.

Hún segir:

„Í sannleika sagt, hefði Walt Disney varið fimmtíu árum við teikniborðið hefði hann ekki getað dregið upp mynd af betri prinsessu.“

Einnig þetta:

„Þetta var undarlegur viðburður. Ekki aðeins ástúðlegasta brúðkaupið í sögu Windsor heldur risavaxin þáttaskil fyrir konungdæmið og þjóðina sem það verður að endurspegla vilji það lifa. Hvað skyldi drottningin hafa hugsað? Föðurbróðir hennar afsalaði sér krúnunni til að kvænast fráskilinni bandarískri konu, systir hennar varð að slíta sambandi við manninn sem hún elskaði af því að hann hafði verið í hjónabandi. Allt breyttist, allt gjörbreyttist. Og vafalaust til hins betra.

„Við höfum eignast systur í höllinni,“ hrópaði blökkukona af gleði í mannþrönginni. Og elsku Harry hefur eignast eiginkonuna sína. „Í Hollywood geyma brúðirnar brúðarvendina og kasta brúðgumunum,“ sagði Groucho Marx. Ekki að þessu sinni. Hertogaynjan Meghan ætti að huga að vel að stráknum okkar, eins og móðir hans gerði, eða hún á bresku þjóðinni að mæta.“

Þetta var vissulega einstaklega glæsileg og söguleg, konungleg sýning. Við sem höfum horft á The Crown okkur til ánægju vitum þó að ekki er endilega allt sem sýnist. Gleðin og ástin skein sem betur fer af öllum í gær nema einstaka lýðveldissinna og Victoriu Beckham.