2.1.2026 9:44

Söguleg Samfylkingarátök

Pétur gat ekki valið betri dag en nýársdag, daginn eftir áramótaskaup sjónvarps okkar allra, til að hefja herferð meðal kjósenda í prófkjöri Samfylkingarinnar: þeir ættu frekar að velja sig en borgarstjórann sem enginn þekkti í skaupinu.

Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur nú setið í eitt ár. Hún er þriggja flokka stjórn á vinstri væng stjórnmálanna. Samhliða þessu hefur myndast hópur vinstrisinnaðra kjósenda utan þings sem stendur án beinna talsmanna eftir að fulltrúar Vinstri grænna og Pírata hurfu af alþingi. Innan Samfylkingarinnar telja margir mikilvægt að höfða sérstaklega til þessa hóps. Borgarstjórnarflokkur flokksins í Reykjavík hefur þegar dregið til sín fyrrverandi forystukonu Pírata og leiðandi öfl þar hafa lýst yfir stuðningi við fimm flokka vinstra meirihlutasamstarfið í borginni.

Í því ljósi vekur athygli að Kristrún Frostadóttir efndi til opinbers samtals við Pétur Marteinsson um oddvitastöðu hans í komandi prófkjöri Samfylkingarinnar.

Pétur segir í samtali á Vísi 2. janúar, daginn eftir að hann tilkynnti formlega um framboð sitt í prófkjörinu að hann hafi árið 2009 skipað níunda sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður þótt hann hafi alltaf verið krati eins og hann haldi raunar að flestir Íslendingar séu. Hann hafi einkum hjálpað vinum sínum í Sjálfstæðisflokknum í prófkjörum, kosningum og öðru slíku en hann hafi í „mörg, mörg ár“ kosið Samfylkinguna.

Fyrir nokkrum vikum hafi einkum ungt fólk hringt í sig og þá hafi hann orðið spenntur fyrir framboði. Hann hafi átt frumkvæði að samtölum um það við forystufólk í Samfylkingunni og þar á meðal Kristrúnu Frostadóttur. Fundur þeirra hafi ekki verið neitt „leyndarmál, það var bara fullt af fólki í kring. Málið er að ég held að pólitík sé ekki eins plottuð og allir halda,“ segir Pétur á Vísi.

Hafi hann átt frumkvæði að fundinum og óskað eftir að hann færi fram á opinberum stað sýnir það vel að hann hefur auga fyrir pólitísku plotti. Það auðveldaði til dæmis fréttastofu ríkisútvarpsins að halda lífi í fréttum af framboðsáformum Péturs, fréttastofan hefur verið gerandi í hans þágu. Þá hafa ráða- og dagskrármenn í Efstaleiti ekki sýnt Heiðu Björg Hilmisdóttur, oddvita Samfylkingarinnar og borgarstjóra, í góðu ljósi undanfarið.

IMG_2860

Pétur gat ekki valið betri dag en nýársdag, daginn eftir áramótaskaup sjónvarps okkar allra, til að hefja herferð meðal kjósenda í prófkjöri Samfylkingarinnar: þeir ættu frekar að velja sig en borgarstjórann sem enginn þekkti í skaupinu.

Þess er ekki vart að Kristrún Frostadóttir vilji láta tengja sig á nokkurn hátt við Heiðu Björg þótt þær séu flokkssystur og Heiða Björg hafi verið varaformaður Samfylkingarinnar. Kristrún lítur Heiðu Björg líklega sömu augum og Dag B. Eggertsson, forvera hennar á borgarstjórastólnum. Kristrún benti fólki á að strika yfir nafn Dags B. þegar þau sátu saman á framboðslista í Reykjavíkurkjördæmi norður og hún hefur haldið honum til hliðar innan þingflokksins.

Það hriktir í innviðum Samfylkingarinnar takist þau á um oddvitasætið í Reykjavík Pétur og Heiða Björg. Hámenntaðir stjórnmálafræðingar bregða örugglega því milda sáttaljósi á átökin að þau séu í anda lýðræðis. Þar er hins vegar tekist á um hvort Samfylkingin haldi til vinstri eða hægri, hvort hún ætli að höfða til kjósenda VG og Pírata. Pétur gerir það ekki, Kristrún veit það.