6.2.2021 10:44

Sneypuför til Moskvu

Frásagnir af ferð Borrells bera með sér einstakan klaufagang. Raunar skildu fáir hvers vegna hann ákvað á þessum tímapunkti að fara til Moskvu.

Ursula von de Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sætir miklu ámæli vegna ESB-klúðursins við kaup á bóluefni gegn kórónuveirunni. Þykir framkvæmdastjórnin hafa sett mjög niður undir forystu hennar.

Yfirstjórn Frontex, landamærastofnunar Evrópu, með höfuðstöðvar í Varsjá og sérstaka stjórnarnefnd þar sem fulltrúi ríkisstjórnar Íslands á sæti, er nú til rannsóknar hjá Olaf, innri endurskoðun og and-spillingarstofnun ESB. Franskur forstjóri Frontex eru mislagðar hendur við harðstjórn sína á stofnuninni. Þá þykir meðferð fjármuna ámælisverð auk gruns um ólögmæta starfshætti landamæravarða. Framkvæmdastjórn ESB virðist ráðþrota gagnvart stjórnendum Frontex sem sogar sífellt meira til sín meira fé.

Nú í vikunni beindist síðan athygli að misheppnaðri ferð Joseps Borrells, utanríkismálastjóra ESB, til Moskvu. Fréttaskýrendur segja að hann hafi verið „tekinn í nefið“ af Sergei Lavrov, gamalreyndum utanríkisráðherra Rússa, sem lét tilkynna um brottrekstur stjórnarerindreka frá Póllandi, Svíþjóð og Þýskalandi á sama tíma og þeir Borrell voru á blaðamannafundi. Stjórnarerindrekarnir voru sakaðir um þátttöku í mótælum til að knýja á um frelsun andófsmannsins Alexeis Navalníjs. Þá dreifði rússneska utanríkisráðuneytið myndbandi til að sanna lögregluofbeldi í ESB-ríkjum.

Frásagnir af ferð Borrells bera með sér einstakan klaufagang. Raunar skildu fáir hvers vegna hann ákvað á þessum tímapunkti að fara til Moskvu þegar æ betur skýrist hve litla virðingu Kremlverjar bera fyrir mannréttindum og hika ekki við að sparka í þann sem þeim tókst ekki að drepa með eitri. Var þetta fyrsta ferð af þessu tagi á vegum ESB til Moskvu í fjögur ár.

D4e69702e762f4db529f57c781a346fb-800xJosep Borrell og Sergei Lavrov á blaðamannafundi í Moskvu 5. febrúar 2021

Yfirlýstur tilgangur Borrells var að efna til „stefnumótandi“ viðræðna um mál eins og Mið-Austurlönd og kynna andstöðu ESB við meðferðina á Navalníj. Andrew Rettman hjá vefsíðunni euobserver lýsir því sem gerðist á blaðamannafundinum í Moskvu á þennan veg föstudaginn 5. febrúar:

„Þess í stað endaði hann [Borrell] með að ráðast á helstu bandamenn ESB, Bandaríkjamenn, vegna Kúbu í furðulegu samhengi.

ESB-diplómatinn mælti einnig með Sputnik V bóluefninu gegn kórónuveirunni – jafnvel þótt sérfæðingar ESB hefðu ekki enn veitt því vísindalegt samþykki.

Og hann veitti Lavrov ókeypis fjölmiðlatækifæri til að hallmæla ESB sem „ótraustum samstarfsaðila“ án þess að gera neitt sem máli skipti fyrir Navalníj.

Borrell skammaði Bandaríkjamenn fyrir gamalt viðskiptabann þeirra og nýlegar gagn-hryðjuverka refsiaðgerðir gegn Kúbu þegar blaðamaður rússneska áróðursmiðilsins Sputnik spurði um skoðun hans.

ESB „hafnaði afdráttarlaust“ bandarísku refsiaðgerðunum sem „sköpuðu kúbönsku þjóðinni mikil vandræði,“ sagði Borrell og bætti við: „ Ég átti ekki von á að tala um Kúbu hér í Moskvu.“

Borrell féll frá áformum að heimsækja Navalníj í fangelsið og hann minntist ekki einu orði á undirróður og hernað Rússa í Austur-Úkraínu.

Talsmaður Ursulu von der Leyen sagði hana ánægða með frammistöðu Borrells í Moskvu!