21.8.2022 11:09

Samfylkingin er í raun dauð

Leið Kristrúnar til flokksformennsku opnar sýn á ákaflega veikburða flokk. Tveimur nýjum þingmönnum tekst á nokkrum mánuðum að ná flokksvöldunum.

Vinnumálaráðherra Frakka, Olivier Dussopt, sagði á sínum tíma skilið við Sósíalistaflokkinn og gekk til liðs við Emmanuel Macron Frakklandsforseta og miðjuflokk hans. Í grein í Journal du dimanche í dag (21. ágúst) segir hann jafnaðarstefnuna, sósíal-demókratismann, dauða. Öfga vinstriöfl hafi yfirbugað hana og gleypt, sósíal-demókratismi hafi ekki lengur neitt inntak. Dussopt hvetur til þess að fyrrverandi flokksbræður sínir átti sig á þessu og hallist frekar að því sem hann kallar progressisme framfara- eða framsóknarstefnu. Hún eigi við um framfarir á öllum sviðum samfélagsins.

Emmanuel Macron á undir högg að sækja á franska þinginu þar sem hann skortir meirihluta til að hrinda stefnu sinni í framkvæmd. Fyrir Dussopt vakir ekki síst að fá stuðning við ný lífeyrislög og vara jafnframt við því sem hann kallar öfga vinstriöflin sem sameinuðust á bak við Jean-Luc Mélenchon í þingkosningunum í júní sl.

Sumarfríinu í frönskum stjórnmálum lýkur næstu daga og flokkarnir búa sig undir vetrarstarfið. Sama gerist hér. Föstudaginn 19. ágúst tilkynnti Kristrún Frostadóttir (34 ára) að hún gæfi kost á sér til formennsku í Samfylkingunni á landsfundi undir lok október. Tilkynningunni hefur verið tekið þannig af gömlu samflokksfólki og áhrifavöldum að augljóst er að enginn væntir neinnar andstöðu við framboðið.

SamfylkinginÍ samtali við Fréttablaðið laugardaginn 20. ágúst segir Kristrún, sem lauk MA-prófi í alþjóðafræði með áherslu á hagstjórn og alþjóðafjármál frá Yale-háskóla 2016 og starfaði sem aðalhagfræðingur Kviku banka hf. 2018–2021, að annars staðar á Norðurlöndunum sé „viðskiptafólk .. ekkert endilega til hægri“. Jafnaðarmenn trúi á sambland ríkis og markaðar.

Tilviljun hafi hins vegar ráðið að hún sneri sér að stjórnmálum. Árið 2020 hafi Jóhann Páll Jóhannsson, fyrrv. blaðamaður á vinstri vefsíðunni Stundinni, hringt og hvatt hana til framboðs. Kristrún og Jóhann Páll komust á lista Samfylkingarinnar í flokkskjöri í Reykjavík og síðan á þing í kosningunum 25. september 2021. Flokkurinn fékk aðeins 9,9% atkvæða og 6 þingmenn eins og Flokkur fólksins og Píratar. Dagar Loga Einarssonar á formannsstóli voru taldir.

Leið Kristrúnar til flokksformennsku opnar sýn á ákaflega veikburða flokk. Tveimur nýjum þingmönnum tekst á nokkrum mánuðum að ná flokksvöldunum. Hvorki heyrist hósti né stuna frá gömlu þingmönnunum fjórum.

Örlög Samfylkingarinnar koma heim og saman við lýsingu franska vinnumálaráðherrans: hún er í raun orðin að engu eins og franski jafnaðarmannaflokkurinn.

Náin samvinna Kristrúnar og Jóhanns Páls við Pírata á alþingi er ekki í anda jafnaðarmennsku heldur vinstri lýðhyggju sem franski vinnumálaráðherrann kennir við öfgar.

Samfylkingin er í raun dauð sem stjórnmálaaflið sem hún átti að verða árið 2000. Dauðastríðið hófst undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur árið 2009.

Kristrún Frostadóttir blæs hvorki lífi í gömlu Samfylkinguna né Alþýðuflokkinn í faðmi Pírata. Hver er stefnan?