15.11.2022 9:22

Skýrsluumræðum drepið á dreif

Beita má ýmsum aðferðum til að drepa opinberum umræðum á dreif. Frá sunnudegi (13. nóv.) höfum við kynnst að minnsta kosti þremur vegna úttektarskýrslu ríkisendurskoðunar á sölu hluta af Íslandsbanka.

Beita má ýmsum aðferðum til að drepa opinberum umræðum á dreif. Frá sunnudegi (13. nóv.) höfum við kynnst að minnsta kosti þremur vegna úttektarskýrslu ríkisendurskoðunar á sölu hluta af Íslandsbanka 22. mars 2022.

  • 1. Að ósk Þórunnar Sveinbjarnardóttur (Samfylkingu) formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar (SEN) alþingis dreifði ríkisendurskoðun skýrslunni til nefndarmanna síðdegis sunnudaginn 13. nóvember. Skyldi farið með hana sem trúnaðarmál þar til eftir fund nefndarinnar með ríkisendurskoðanda klukkan 16.00 mánudaginn 14. nóvember. Efni skýrslunnar birtist hins vegar í fréttum ríkisútvarpsins að kvöldi 13. nóvember. Einhver þingmaður hafði brugðist trúnaði. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að það sé í verkahring SEN að rannsaka „einkar bagalegan“ lekann.
  • 2. Í stað þess að ræða efni skýrslunnar sem hlutlæga úttekt sem skýri málið gerði Þórunn Sveinbjarnardóttir hana marklausa með þeim orðum að „það hefði verið betra að taka þá ákvörðun strax í upphafi að skipa rannsóknarnefnd með öllum þeim heimildum sem hún hefur“. Veit hún þó ekki enn um allar hliðar málsins þar sem fjármálaeftirlitið á eftir að skila niðurstöðu rannsóknar sinnar.
  • 3. Furðuleg uppákoma varð vegna samspils Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, fréttamanns ríkisútvarpsins, og Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, um þann spuna að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefði ekki „þorað“, svo að notað sé orð Kristrúnar, að ræða við Kristrúnu í Kastljósi sjónvarpsins að kvöldi 14. nóvember. Misnotaði Sigríður Dögg aðstöðu sína sem þáttarstjórnandi og viðmælandi Bjarna í þættinum til að gefa þessari „hetjusögu“ Kristrúnar vængi. Varð það til þess að Hersir Aron Ólafsson, aðstoðarmaður Bjarna, kvaddi sér hljóðs á Facebook. Lýsti samskiptum sínum við Sigríði Dögg og sagði hana hafa farið með rangt mál þegar hún misnotaði aðstöðu sína í beinni útsendingu.

1377240Á mbl.is birtist þessi samsetta mynd af samtali Sigríðar Daggar Auðunsdóttur við Bjarna Benediktsson í Kastljósi 14. nóvember 2022. Sigríður Dögg misnotaði aðstöðu sína og braut allar reglur.

Augljóst er af viðbrögðum stjórnarandstæðinga að þeir fengu ekki það sem þeir vonuðu frá ríkisendurskoðun. Þá er gripið til þess ráðs að gera skýrsluna marklausa og nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar sýnir sömu takta sem einkenna framgöngu hennar frá því að hún var „krýnd“ til formennskunnar í ágúst að enginn hafi roð við henni. Hún bolaði sjálfri Helgu Völu Helgadóttur úr formennsku þingflokks Samfylkingarinnar og nú notar hún tengsl við Sigríði Dögg til að hefja sig á stall Bjarna Benediktssonar.