19.5.2020 9:54

Skýr svör Katrínar

Illskiljanlegra er eftir þessi greinargóðu svör Katrínar Jakobsdóttur en áður hvers vegna í ósköpunum VG leggst enn gegn NATO.

Tveir flokksformenn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Miðflokki og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Viðreisn, sóttu að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á alþingi mánudaginn 18. maí vegna frétta um að VG hefði komið í veg fyrir framgang tillagna um varnarframkvæmdir sem utanríkisráðherra kynnti í umræðum á vettvangi ríkisstjórnarinnar um aðgerðir vegna COVID-19-faraldursins. Flokksformennirnir fóru sneypuför ef þeir ætluðu sér að veikja stjórnarsamstarfið með spurningum sínum.

Forsætisráðherra skýrði afstöðu sína og sagði meðal annars:

„Í fyrsta lagi hefur því verið haldið fram að Vinstrihreyfingin – grænt framboð standi gegn þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Ég hef ekki séð nein rök færð fyrir þeirri staðhæfingu og minni þar á að í kjölfar yfirlýsingar sem íslensk stjórnvöld undirrituðu með bandarískum stjórnvöldum árið 2016, þar sem boðuð var ákveðin uppbygging á Keflavíkurvelli og í kjölfar hennar sameiginlegur skilningur stjórnvalda á árinu 2017 um það hvað sú uppbygging skyldi snúast um, hefur staðið yfir á Keflavíkurvelli uppbygging fyrir 12 milljarða kr. Sýnir það ekki að Vinstrihreyfingin – grænt framboð stendur við þær ákvarðanir sem teknar eru og byggjast á mati á varnarhagsmunum sem fram fór í kjölfar þeirrar yfirlýsingar sem gefin var út 2016?“

Svarið við spurningunni er, jú. Kjarninn í afstöðu forsætisráðherra er að þjóðaröryggisstefnunni skuli fylgt. Hugmyndina um nýjar framkvæmdir nú eigi ekki að skoða „með miklum hraði“ við gerð fjáraukalaga vegna COVID-19. „Engar formlegar viðræður hafa átt sér stað milli íslenskra stjórnvalda og Atlantshafsbandalagsins um þær framkvæmdir,“ sagði forsætisráðherra. Telur hún réttilega að ákvörðun um nýframkvæmdir eigi að taka að loknum slíkum viðræðum: „Svona ákvörðun hlýtur alltaf að teljast utanríkispólitísk og byggjast á sameiginlegu mati aðila á varnarhagsmunum,“ sagði hún.

20190611_190611a-023_rdax_775x436Katrín Jakobsdóttir og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum 11. júní 2019.

Forsætisráðherra, formaður þjóðaröryggisráðs, minnti á að á vegum ráðsins væri nú unnið að áhættumati fyrir Ísland, – síðast var það gefið út 2009 (!) – og henni þætti „mikilvægt að við byggjum allar ákvarðanir okkar í þeim efnum á“ því en matið ætti að „liggja fyrir þinginu í haust og [væri] unnið af undirbúningshópi þjóðaröryggisráðs.“ Vanda yrði til verksins vegna þjóðaröryggis.

Katrín Jakobsdóttir sagði VG „sannarlega“ ekki leggjast gegn vestrænni samvinnu þótt flokkurinn andmælti aðild að NATO. Hún minnti á að viðhald mannvirkja undanfarin þrjú ár á varnarsvæðinu á Keflavíkurvelli hefði verið meira en frá árinu 2002. Ríkisstjórn hennar hefði „svo sannarlega“ fylgt þjóðaröryggisstefnunni betur eftir en fyrri ríkisstjórnir.

Ekki ætti að horfa á öryggismál út frá efnahagslegum forsendum heldur með þjóðaröryggi að leiðarljósi.

Forsætisráðherra kynnti haldgóð rök fyrir afstöðu VG til hugmynda um framkvæmdir við Helguvík. Illskiljanlegra er eftir þessi greinargóðu svör Katrínar Jakobsdóttur en áður hvers vegna í ósköpunum VG leggst enn gegn NATO.