Skýr stefna Bjarna
Hörðust er ádeila Bjarna á stöðuna í útlendingamálum og hve seint gengur að afgreiða mál þeirra sem koma hingað ólöglega og sitja hér og bíða á kostnað skattgreiðenda.
Tæplega 90 mínútna samtal Gísla Freys Valdórssonar
við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra,
á hlaðvarpi Þjóðmála, sem má nálgast hér, bregður ljósi á stjórnarsamstarfið
og helstu viðfangsefni stjórnmálanna innan lands á líðandi stund.
Bjarni segir að stjórnarmyndunin eftir kosningarnar í september 2021 hafi tekið langan tíma vegna þess að flokkarnir þrír sem standa að stjórninni hefðu þegar starfað saman í fjögur ár, forystumönnum þeirra og þingmönnum hafi verið ljóst hver ágreiningsmálin væru og ættu þeir að starfa áfram saman yrðu þeir að finna framtíðarlausn sem jafnaði ágreining á milli þeirra.
Það ætti ekki að koma neinum á óvart að þannig sé staðið að samstarfi í samsteypustjórnum. Að þrír flokkar eigi aðild að ríkisstjórn flækir allar málamiðlanir og herðir kröfuna um að við þær sé staðið. Hvern dag sem líður af kjörtímabilinu eru stjórnmálamenn og aðrir minntir á að þeir eru á ótroðnum pólitískum slóðum, þriggja flokka stjórn hefur aldrei áður lifað samstarf í heilt kjörtímabil og síðan farið inn í nýtt.
Bjarni Benediktsson (mynd: mbl/Eggert Jóhannesson).
Nú þegar kjörtímabilið er brátt hálfnað gætir vaxandi óþreyju innan stjórnarflokkanna eftir skarpari pólitískum línum. Flokkarnir fái sjálfstæðara svipmót en við blasir að fyrirmælum stjórnarsáttmálans.
Í samtalinu við Bjarna kemur fram að við myndun ríkisstjórnarinnar hafi hugmynd um að banna hvalveiðar verið hreyft. Hann lagðist gegn því og engin heimild í þá veru sé í stjórnarsáttmálanum. Þess vegna kom það honum í opna skjöldu þegar Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra tók skyndiákvörðun um að „fresta“ hvalveiðum í sumar á þann hátt að öllum var ljóst að hún ætlaði að stöðva veiðarnar í eitt skipti fyrir öll.
Um ákvörðun Svandísar er deilt vegna þess hvernig að henni var staðið í ljósi stjórnsýslu og laga um hana. Nú er einnig ljóst að ákvörðun er brot gegn niðurstöðu sem um var samið við myndun ríkisstjórnarinnar. Þegar ráðherra í flokki forsætisráðherra gengur fram á þennan hátt er grafið undan stjórnarforystunni. Nú hefur þingflokksbróðir Svandísar síðan gagnrýnt hana fyrir afstöðu hennar til strandveiða.
Í samtalinu svarar Bjarni ítarlega og á málefnalegan hátt gagnrýni á stjórn hans á ríkisfjármálum. Leyfi menn verkunum að tala og árangrinum sem náðst hefur að njóta sín eru stór orð gagnrýnendanna í raun léttvæg.
Hörðust er ádeila Bjarna á stöðuna í útlendingamálum og hve seint gengur að afgreiða mál þeirra sem koma hingað ólöglega og sitja hér og bíða á kostnað skattgreiðenda sem borga 350.000 kr. á mánuði með hverjum og einum.
Á meðan stjórnarflokkarnir koma sér ekki saman um lagabreytingar og aðferð til að binda enda á þetta ástand minnkar stuðningur við stjórnina jafnt og þétt. Að stjórnarandstaðan vilji spara þessi ríkisútgjöld er af og frá. Þar dreymir menn um að fleiri hælisleitendur séu teknir upp á arma skattgreiðenda. Ríkisstjórnin situr einfaldlega vegna þess að enginn kostur er betri í umboði kjósenda.