1.8.2020 11:59

Skýr skil milli stjórnar og andstöðu

Stjórnarflokkarnir þrír leggja sig fram um að leysa mál en stjórnarandstöðuflokkarnir fimm þrífast á upphrópunum og tilraunum til að auka á vanda frekar en boða lausnir.

Andrés Magnússon, nýráðinn fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins, ræðir við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í sunnudagsblaðinu (dags. 2. ágúst). Þar má lesa þessi orðaskipti:

„Ræðum þá um stjórnarsamstarfið. Nú höfðu áður komið fram hugmyndir um svipað stjórnarmynstur án þess að þær rættust, fyrr en þarna hjá ykkur. En það voru alls ekki allir bjartsýnir á að það myndi lukkast vel; flokkarnir væru of ólíkir, stefnur þeirra ósamrýmanlegar og sumir hefðu sagt eitthvað í fyrndinni sem ekki yrði aftur tekið. En það verður nú varla séð að stjórnarsamstarfið hafi reynst mjög stirt, er það?

„Nei...en það er nú svolítið gaman að rifja þetta upp. Ég veit ekki hvað fólk mun halda um mig, en þar sem ég hef verið fótlama í sumar og ekki getað verið að ganga hálendið, þá sat ég heima hjá mér og var að blaða í gömlum úrklippum - ég safna dóti - og var þá að lesa umræðu, vangaveltur og spádóma um stjórnarmyndun, bæði 2016 og 2017. Það hefur satt best að segja fjarskalítið gengið eftir af því sem þar var sagt. Eiginlega merkilega lítið. Þar var ekki aðeins talað um ólíka flokka og ólíkar stefnur, heldur að tiltekið fólk væri of ólíkt, væri sumu lífsins ómögulegt að vinna saman.

Mér finnst þetta áhugavert af því að þetta stímabrak við stjórnarmyndun mótaði mig talsvert. Að ganga í gegnum langar, ítarlegar og flóknar viðræður 2016, sem áttu sér stað í fimm atrennum og lyktaði loks með þriggja flokka ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Það var sú reynsla sem gerði það að verkum að ég ákvað að láta vaða á þetta samtal 2017.

Mér fannst ég hafa lært mikið af viðræðunum árið áður og vildi ekki festast í sama fari. 2016 vorum við nánast í beinni útsendingu með allt sem sagt var og hvert einasta símtal var komið í fréttir áður en maður vissi af.“

Screenshot_2020-08-01-untitled-I2020-08-01-pdfÞessi lýsing á samstarfi stjórnarflokkanna þriggja, VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks annars vegar og framgöngu stjórnarandstöðuflokkanna fimm, Samfylkingar, Viðreisnar, Miðflokksins, Pírata og Flokks fólksins hins vegar er lýsing á meginskilum sem enn setja svip á íslensk stjórnmál. Stjórnarflokkarnir þrír leggja sig fram um að leysa mál en stjórnarandstöðuflokkarnir fimm þrífast á upphrópunum og tilraunum til að auka á vanda frekar en boða lausnir. Katrín Jakobsdóttir átti þess vissulega kost að sitja í ljónagryfju upphlaupsflokkanna en reynslan frá 2016 beindi henni inn á aðra, farsælli braut eins og hagur þjóðarinnar og reynslan sýnir.

Frásögn forsætisráðherra af hrakspánum vegna stjórnarmyndunarinnar minnir á hve mikið af því sem sagt er um íslensk stjórnmál er sagt í viðtengingarhætti og rætist aldrei. Fréttir ríkisútvarpsins snúast oft meira um það sem kynni að gerast en það sem gerist í raun.

Nú er rúmt ár til kosninga. Þegar forsætisráðherra kynnti að kjördagur yrði 25. september 2021 taldi stjórnarandstaðan einhvern dag um vorið 2021 betri en henni datt ekki annað í hug en að stjórnin sæti til þess dags sem forsætisráðherra hefði ákveðið. Það sannar enn styrk stjórnarsamstarfsins og vanmátt stjórnarandstöðunnar.